Grikkir lögðu ekki fram neinar nýjar tillögur á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í dag og munu ekki gera það á leiðtogafundi Evrópusambandsríkjanna í kvöld. Þetta hefur Jeroen Dijsselbloem, forseti evruhópsins, staðfest. Þrátt fyrir að engar tillögur hafi verið lagðar fram hélt nýr fjármálaráðherra Grikklands, Euclid Tsakalotos, kynningu fyrir hina fjármálaráðherrana á fundinum í dag.
Grikkir ætla þess í stað að leggja fram tillögur sínar á morgun. Dijsselbloem sagði við blaðamenn að loknum fundi evruhópsins í Brussel að hópnum hefði verið talin trú um að tillögurnar kæmu í dag. Hann greindi svo frá því að annar fundur verður haldinn í gegnum síma á morgun. Þá mun Seðlabanki Evrópu meta stöðuna í Grikklandi frá degi til dags. „Það er lítill tími til stefnu og hann styttist bara eftir því sem við höldum áfram,“ sagði hann. Vandinn væri aðkallandi.
Undir það tók Johan Van Overtveldt, fjármálaráðherra Belgíu, í samtali við fjölmiðla. „Gríska hagkerfið er í frjálsu falli, bankakerfið meira og minna líka, svo við höfum ekki mikinn tíma.“ Hann sagði hins vegar að eini fjármálaráðherrann sem virtist ekki gera sér grein fyrir því hversu áríðandi er að finna lausn sé fjármálaráðherra Grikklands.
Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna koma nú einn af öðrum til fundar í Brussel. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði við blaðamenn þegar hann kom á staðinn að nú sé lausn á málinu undir Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, komin. „Ég er alltaf til í að hitta hann til að ræða stöðuna,“ sagði hann.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, var myrkur í máli þegar hann kom á fundinn. Hann sagði Grikki vera að taka mjög stóra áhættu og eina lausn vandans væri að ráðast í umbætur. Ef Grikkir komi ekki fram með almennilegar tillögur fljótlega muni leiðtogar evruríkjanna ekki geta hjálpað þeim.
Angela Merkel Þýskalandskanslari tjáði sig einnig við fjölmiðla á leið sinni inn á fund leiðtoga Evrópusambandsríkjanna, en fundurinn hefst klukkan 16. Merkel sagði enn ekki vera neinn grundvöll til samningaviðræðna við Grikki. Þó væru aðeins nokkrir dagar til stefnu. Hún hvatti til samstöðu í Evrópu og ábyrgðar hjá Grikkjum. Án samstöðu og án umbóta yrði ekki hægt að ganga frá málunum.