Guðmundur Steingrímsson þingmaður hættir sem formaður Bjartrar framtíðar þann 5. september næstkomandi þegar ársfundur flokksins verður haldinn í Reykjavík. Róbert Marshall mun einnig segja af sér sem þingflokksformaður flokksins. Er þetta sameiginleg ákvörðun þeirra og vilja þeir með þessu veita öðrum svigrúm til að stýra flokknum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Síðastliðinn fimmtudag hélt flokkurinn fund þar sem staða flokksins var rædd, að því er fram kemur í Fréttablaðinu. Um sjötíu manns mættu á fundinn og þar tilkynnti Guðmundur að hann myndi ekki bjóða fram krafta sína áfram sem formaður flokksins. „Þetta var góður fundur þar sem við ræddum saman um hvernig við vildum sjá flokkinn okkar þróast,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.
„Mér finnst skynsamlegt að stíga til hliðar í forystunni og leyfa öðrum að spreyta sig í því. Menn eiga ekki að vera meira til í það í íslenskri pólitík, hún á ekki að snúast um einhverja titla,“ segir Guðmundur ennfremur við Fréttablaðið.
Á fundi sem Björt framtíð hélt síðastliðinn fimmtudag var nafni Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns flokksins, velt upp sem mögulegum næsta formanni. Hún segir við Fréttablaðið að hún gæti hugsað sér að skoða þann möguleika.
Gagnrýni Heiðu Kristínar setti allt af stað
Nokkur óánægja hefur verið með gang mála innan Bjartrar framtíðar undanfarin misseri, og gagnrýndi Heiða Kristín Helgadóttir, sem áður var í forystu flokksins, Guðmund formann vegna slæmrar stöðu flokksins í viðtali við Kjarnann, en flokkurinn mælist nú með aðeins 4,4 prósent fylgi.
Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.
Í kjölfar gagnrýni sinnar á Guðmund sagðist Heiða Kristín opin fyrir því að sækjast eftir formannsembættinu ef vilji væri fyrir því hjá flokksmönnum. Guðmundur tilkynnti í byrjun síðustu viku að hann hefði engan áhuga á formannsslag og myndi leggja fram tillögu um að æðstu embætti flokksins myndu róterast. Þá tillögu ætlar hann að leggja fram á ársfundi Bjartrar framtíðar í byrjun september. Verði sú tillaga samþykkt mun starf formanns og þingflokksformanns róterast á milli sex þingmanna Bjartrar framtíðar en aðrir gegna starfi stjórnarformanns.