Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segir flokkinn hafa sogast inn í mjög hefðbundna og súra atburðarás. Hann ætlar að leggja til breytingartillögu á hvernig valið verður í forystu flokksins á ársfundi Bjartrar framtíðar í september.
„Þetta er margendurtekin tugga í íslenskri flokkapólitík. Fylgið dalar, formaður þarf að taka ábyrgð, það er formannsslagur og síðan stendur eftir laskað fley,“ sagði Guðmundur í samtali við Kjarnann. „Það er ekki þráður í mér sem langar að fara út í svona. Ég hef bara engan áhuga á að fara með flokkinn í þessa átt.“
Guðmundur skýrði breytingartillögu sína á Facebook í dag. Í samtali við Kjarnann segir hann hugmyndina hafa komið upp í samtölum innan flokksins, þar séu þingkonur flokksins ekki síst hugmyndasmiðirnir. „Það hefur verið imprað á því hvort við eigum ekki einfaldlega að láta þetta formannshlutverk, stjórnarformennskuhlutverkið og þingflokksformennskuhlutverkið róterast milli fólks. Fleiri tækju ábyrgð á þessu. Dreifa ábyrgðinni,“ segir Guðmundur sem sér fyrir sér að þingmenn skiptist á að vera formenn, ekki ósvipað því sem gerist í ráðherraráði Evrópusambandsins.
Hann segist hafa heyrt margar áhugaverðar kennignar um fylgistap flokksins. Björt framtíð mælist nú með 4,4 prósenta fylgi, miðað við nýjustu könnun MMR sem Kjarninn greindi meðal annars frá. Eftir að könnunin var birt gagnrýndi Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi stjórnarformaður flokksins, flokkinn í samtali við Kjarnann og sagði vanda Bjartar framtíðar vera innan flokksins.
„Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð,“ sagði Heiða Kristín. Guðmundur segist ekki vilja bregðast við þessari gagnrýni á hefðbundinn hátt, „berja [sér] á brjóst, taka þennan slag og segjast vera æðislegur,“ eins og hann orðar það.
Frekar telur hann tvennt vera meinsemd í flokkapólitíkinni „Það eru slagir innan flokks um hver skipar embætti og skapað flokkadrætti í þessum hreyfingum. Ég vil ekki vera í pólitík á þessum forsendum. Hitt er að það virðist vera að færast í vöxt að vera alltaf að tala um þessa formenn. Bara eins og segir í laginu: Þú gerir ekki rassgat einn.“
Fylgistapið telur hann vera vegna þess að flokkurinn hafi fallið í of hefðbundinn farveg. „Því langar mér að breyta og fara aftur í okkar grunngildi. Og svo verðum við bara að láta meira að okkur kveða. Íslandi er stjórnað mjög ólýðræðislega um þessar mundir, sérhagsmunahópar ráða allt of mikið för. Það eru andstæðingar okkar í pólitík — einokunarsinnar, fordómaöflin, frekjukallinn — við þurfum að kljást við allt þetta,“ segir hann að lokum.