Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, segist taka við sem dómsmálaráðherra í mars næstkomandi. Þetta kom fram í viðtali við hana í Dagmálum á mbl.is. Þar segir hún að útlendingamál kunni að verða erfiðust þeirra mála sem bíða úrlausnar Alþingis eftir áramót.
Frumvarp Jóns Gunnarssonar, núverandi dómsmálaráðherra, um útlendingamál, fékk ekki afgreiðslu á þingi fyrir jól og samið var um það í þinglokasamningum að fresta annarri umræðu um þangað til fljótlega eftir að þing tekur aftur til starfa eftir rúmlega eins mánaðar jólafrí þann 23. janúar.
Eini ráðherrann sem er ekki oddviti
Það vakti töluverða athygli þegar tilkynnt var að Jón Gunnarsson yrði dómsmálaráðherra í öðru ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur eftir að saman náðist um að halda stjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áfram eftir síðustu kosningar. Fyrir það fyrsta er Jón ekki oddviti síns kjördæmis heldur sat hann í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Kraganum, kjördæmi flokksformannsins Bjarna Benediktssonar. Hann er eini ráðherrann í ríkisstjórn sem er ekki oddviti. Með því að velja Jón var gekk Bjarni framhjá tveimur oddvitum í landsbyggðarkjördæmum, Guðrúnu í Suðurkjördæmi og Njáli Trausta Friðbertssyni í Norðausturkjördæmi.
Jón átti þó ekki að sitja sem ráðherra út kjörtímabilið, heldur einungis í 18 mánuði. Svo átti Guðrún að taka við. Hún var ekki sátt með þá ákvörðun. Það voru Sjálfstæðismenn í hennar kjördæmi ekki heldur og kröfðu formanninn skýringa.
Bjarni varði valið á Jóni með þeim rökum að Jón kæmi úr stærsta kjördæmi landsins þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins væri mest. Hann hafi verið þingmaður frá árinu 2007 og áður gegnt ráðherraembætti um skamma hríð á árinu 2017. Þá var hann ritari flokksins þegar ríkisstjórnin var mynduð og hefði, að mati Bjarna, sterkt umboð innan Sjálfstæðisflokksins.
Hefur mælst afar óvinsæll ráðherra
Í könnun sem gerð var í janúar 2022, skömmu eftir að ríkisstjórnin tók við, kom fram að um þriðjungur landsmanna gerði minnstar væntingar til Jóns í starfi af öllum ráðherrunum. Hann var sá ráðherra sem langflestir gerðu litlar væntingar til.
Kjarninn greindi frá því í gær að samkvæmt nýlegri könnun Maskínu telja 16,3 prósent landsmanna að Jón hafi staðið sig illa sem ráðherra. Einungis einn ráðherra var óvinsælli, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, en 26,8 prósent landsmanna telja að hann hafi staðið sig illa. Þeir eru einu ráðherrarnir sem fá þann dóm að hafa staðið sig verst hjá hlutfalli landsmanna sem nær tveggja stafa tölu.
Í nóvember var gerð könnun þar sem spurt var um traust til ráðherra. Þar kom fram að sá sem nyti minnst trausts væri Bjarni, en alls sögðust 61 prósent svarenda bera lítið traust til hans. Jón Gunnarsson kom fast á hæla Bjarna, en alls sögðust 59 prósent svarenda vantreysta honum. Jón var líka í næst neðsta sæti yfir þá ráðherra sem svarendur nefndu um þá sem þeir treystu best, en tæplega 21 prósent nefndu hann. Einungis Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, var nefnd sjaldnar er hann.
Í fyrrahaust sagði Jón að það væri ekki ákveðið að hann myndi stíga til hliðar eftir 18 mánuði og að hann vildi vera ráðherra lengur. Eftir að hafa svarað því órætt í kjölfarið hvort fyrri áform um ráðherraskipti hefðu breyst tók Bjarni af allan vafa í byrjun nóvember um að Guðrún yrði ráðherra snemma árs 2022.