Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi, mun ekki verða í framboði í þingkosningunum þann 25. september næstkomandi. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir hann þetta vera réttan tíma til að snúa sér að öðru.
Gunnar Bragi, hefur setið á Alþingi frá árinu 2009, fyrst fyrir Framsóknarflokkinn en hann fylgdi svo Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni út úr þeim flokki þegar sá síðarnefndi stofnaði Miðflokkinn í aðdraganda kosninga 2017. Gunnar Bragi sat bæði sem utanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs á árunumu 2013 til 2016. Hann var kjörinn fyrsti varaformaður Miðflokksins en það embætti hefur síðan verið lagt niður.
Gagnrýnir Framsókn fyrir undirmál og óheilindi
Í viðtalinu við Morgunblaðið fer Gunnar Bragi yfir það þegar þeir Framsóknarmenn sem fylgdu Sigmundi Davíð að málum ákváðu að yfirgefa Framsóknarflokkinn og stofna með honum Miðflokkinn. Það gerðist í kjölfar þess að Sigmundur Davíð þurfti að segja af sér sem forsætisráðherra vegna Panamaskjalanna í apríl 2016 og tapaði svo formannskosningu í Framsóknarflokknum fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í aðdraganda kosninga þá um haustið.
Gunnar Bragi segir að það sé fólk í bæði Framsókn og Miðflokki sem geti talað saman og myndað traust þrátt fyrir þessa forsögu, en að það sé ekki almennt. „Það var erfitt fyrir okkur mörg að stíga þetta skref, en ég sé ekki eftir því. Það var óhjákvæmilegt. Það var einfaldlega ekki hægt að sitja undir þeirri forystu, sem þar var og er. Það getur vel verið að við getum unnið með þessu ágæta fólki, en við getum ekki verið saman í flokki. Og það eru auðvitað særindi, eðlilega, þegar það eru undirmál og óheilindi, eins og voru í Framsókn á þessum tíma. Það hjálpar ekki heldur þegar maður sér að þeir sem mest og verst höfðu sig í frammi með óheilindum þá, eru núna að reyna að lappa upp á ímyndina með því að fara í viðtöl og tala um æskuna eða annað slíkt til þess að breiða yfir sína framgöngu í stjórnmálum.“
Sá forvígismaður Framsóknarflokksins sem hefur farið í viðtal á þessu kjörtímabili og talað um erfiða æsku sína er Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Hann fór í það viðtal i Morgunblaðinu í nóvember í fyrra.
Braut siðareglur með ummælum á Klaustri
Árið 2019 komst ráðgefandi siðanefnd Alþingis að þeirri niðurstöðu að Gunnar Bragi og Berþór Ólason, annar þingmaður Miðflokksins, hefðu brotið siðareglur Alþingis með ummælum sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember 2018, og voru tekin upp af öðrum gesti sem þar var. Gunnar Bragi fór í leyfi frá störfum eftir að málið kom fyrst upp og hélt því fram að hann hefði verið ofurölvi þegar atburðurinn átti sér stað. Sökum þess bar hann við minnisleysi.
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum að mati nefndarinnar.
Nefndin fór yfir ummæli Gunnars Braga um Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. auk Ragnheiðar Runólfsdóttur, fyrrverandi sundkonu. Komist var að þeirri niðurstöðu að í ummælunum fælist vanvirðing í garð umræddra kvenna og þau væru til þess fallin að skaða ímynd Alþingis.
Eiginkonurnar kjósi ekki Miðflokkinn með Gunnar Braga innanborðs
Halldór Gunnarsson frá Holti, sem situr í flokksráði Miðflokksins, skrifaði grein í nóvember í fyrra þar sem hann sagði að Miðflokkurinn gæti ekki náð í ríkisstjórn eftir næstu kosningar ef Gunnar Bragi yrði í framboði fyrir hann haustið 2021. „Skoðanakannanir sýna að konur kjósa síst flokkinn. Þetta staðfestir síðasta framboð flokksins til sveitarstjórnar á Austurlandi á sinn hátt. Næstum án undantekningar heyri ég eiginkonur manna hliðhollra Miðflokknum segja við mig: Ég kýs ekki Miðflokkinn ef Gunnar Bragi Sveinsson býður sig fram. Þegar ég spyr um ástæður er svarið það sama, sem ég þarf ekki að endursegja, því allir virðast sammála um ástæðuna.“
Þar var Halldór að vísa til Klausturmálsins.
Skömmu áður, í september 2020, hafði verið kosið í sveitastjórn nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi, Múlaþingi. Þar fékk Miðflokkurinn minnst fylgi þeirra flokka sem buðu fram og náði einum fulltrúa inn í ellefu manna sveitarstjórn.
Sigurður Ragnarsson framkvæmdastjóri á Héraði, sem sat í 7. sæti á framboðslista flokksins, sagði í aðsendri grein á vef Austurfréttar í kjölfarið að hann væri bæði bitur og miður sín yfir úrslitum kosninganna. „Mér finnst afar ósanngjarnt að ég og aðrir sem unnum af heilindum í aðdraganda þessarra kosninga skyldum endalaust þurfa að svara fyrir fyllerísröfl Gunnars Braga Sveinssonar á bar suður í Reykjavík, og allar þær hugmyndir og hugsjónir sem við hefðum væru einskis virði þess vegna.“
Fylgi Miðflokksins hefur dalað að undanförnu og í síðustu könnun MMR mældist flokkurinn með 5,7 prósent fylgi. Það er minnsta fylgi sem hann hefur mælst með í könnunum fyrirtækisins frá því að mælingar á fylgi flokksins hófust, og minna fylgi en Miðflokkurinn mældist með í kjölfar Klaustursmálsins. Samkvæmt mælingu MMR yrði Miðflokkurinn minnstur þeirra átta flokka sem næðu inn á þing ef kosið yrði í dag, en flokkurinn fékk 10,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017.