Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að ástæða þess að hann valdi að leggja ekki fram aðra þingsályktunartillögu um slit á viðræðum við Evrópusambandið vera þá að tillagan sem hann lagði fram fyrir um ári hafi verið tekin „í gíslingu“ á Alþingi Íslendinga. Þetta kom fram í viðtali við Gunnar Braga í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þess í stað sendi Gunnar Bragi bréf til Evrópusambandsins þar sem því var tilkynnt að Ísland vildi ekki lengur vera flokkað sem umsóknarríki.
Aðspurður um skoðun sína á bréfi sem stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi hafa sameiginlega sent Evrópusambandinu vegna ákvörðunar Gunnars Braga um að slíta viðræðum við Evrópusambandið síðastliðinn fimmtudag, sagði utanríkisráðherrann að hann hefði heyrt orðið valdarán einhversstaðar. „Og ef þetta er ekki valdarán...“. Gunnar Bragi sagði bréfið mjög undarlegt og að það sem fram kom í því byggi á mjög veikum lagalegum grunni.
Í bréfinu, sem var sent í gær, segir að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi mismunandi skoðanir á aðild að Evrópusambandinu. Flokkarnir séu hins vegar sammála um að bréfið sem Gunnar Bragi Sveinsson sendi á fimmtudag, og hann telur að hafi slitið viðræðum við sambandið, geti ekki breytt stöðu Íslands gagnvart sambandinu. Það sé eingöngu á valdi Alþingis að ákveða að breyta stöðu ríkisins.
Í fréttum RÚV í kvöld sagði Gunnar Bragi að með bréfinu sem hann sendi hafi ríkisstjórn verið að tilkynna Evrópusambandinu að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.