Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur fyrir hönd Íslands samþykkt sameiginlega yfirlýsingu ríkjanna á norðurslóðum um hlýnun loftslags og norðurslóðir. Þar er kapp þessara ríkja um að hægja á hlýnun jarðar undirstrikað og ríkin lýsa sig skuldbundin til að vinna saman að alþjóðlegu samkomulagi á loftslagsráðstefnunni í París í desember (COP 21).
Yfirlýsingin var gerð eftir fund utanríkisráðherra og annara fulltrúa ríkjanna á norðurslóðum í Anchorage í Alaska í gær. Fundurinn kallaðist GLACIER sem stendur fyrir „Global Leadership in the Arctic: Cooperation, Innovation, Engagement, and Resilience“. Fundinn sóttu auk fulltrúa Íslands, fulltrúar Hollands, Suður-Kóreu, Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og Bandaríkjanna.
„Við tökum mark á aðvörunum vísindamanna: hitastig á norðurslóðum hækkar meira en tvisvar sinnum hraðar en annarsstaðar í heiminum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni. „Hafís, ísbreiðan á Grænlandi og nærri allir jöklar á norðurslóðum hafa rýrnað síðustu 100 árin. […] Ísinn á norðurskauti jarðar hefur hopað hraðar síðustu tíu árin en árin 20 þar á undan, á sumrum er ísbreiðan nú 40 prósent minni en árið 1979.“
Bráðunun íssins hefur dramatísk áhrif um allan heim. Yfirborð sjávar hækkar, hlýrra og þurrara veður ríkir á norðurhveli með þeim afleiðingum að mun meiri hætta steðjar að dýralífi og gróðri. Aukin tíðni gróðurelda eykur svo koltvísýring í loftinu. Aukin hlýindi hafa einnig þau áhrif að sífreri bráðnar með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn af gróðurhúsalofttegundum losna úr jörðinni og út í andrúmsloftið. Hér er því um vítahring að ræða sem verður að stöðva strax.
Utanríkisráðherrarnir frá vinstri: Bert Koenders frá Hollandi, Yun Byung-se frá Suður-Kóreu, Kristian Jensen frá Damörku, Margot Wallstrom frá Svíþjóð, John Kerry frá Bandaríkjunum, Timo Soini frá Finnlandi, Gunnar Bragi Sveinsson og Børge Brende frá Noregi. (Mynd: Utanríkisráðuneyti BNA)
Í yfirlýsingunni segir einnig að þessi hlýindi hafi þegar haft beinan kostnað fyrir samfélög á norðurslóðum. Bráðnun sífrerans hefur til dæmis orðið til þess að brýr, vegir og önnur mannvirki hafa hrunið og landbrot sjávar eykst og takmarkar landrými í borgum og sveitum svo fólk þarf að flytja úr heimahögum. Veiðistaðir og fiskimið hafa jafnframt breyst.
Ríkin á norðurslóðum ætla að nota þessi miklu vandamál sem vettvang samvinnu og nýsköpun; „um leið og við stöndum saman vörð um þetta mikilvæga svæði og fræðum heiminn um það hvers vegna norðurslóðir skipta okkur öll máli,“ segir svo í lok yfirlýsingarinnar.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að Gunnar Bragi hafi rætt við John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um loftslagsmál og varnarsamvinnu ríkjanna. Gunnar Bragi flutti jafnframt erindi á fundinum þar sem hann fjallaði um endurnýjanlega orkugjafa sem tæki til að sporna við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum, þá sérstaklega nýtingu jarðhita og reynslu Íslendinga á því sviði.
Ráðstefnunni lauk með ræðu Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, þar sem hann sagði heiminn ekki hafa brugðist nógu hratt við hlýnun loftslags. „Vísindin eru vægðarlaus. Aðgerðir mannkyns eru að trufla loftslag á jörðinni, á margan hátt hraðar en við héldum,“ sagði Obama meðal annars í ræðu sinni og benti á að áhrif loftslagsbreytinga væri helst að merkja á norðurslóðum. Ræðu Obama má sjá í heild sinni hér að neðan.
https://youtu.be/FvIrlaXU28A