Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og forseta viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, deilir áhyggjum Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að hagsmunahópar stýri að miklu leyti málum hérlendis.
Þar með sé ekki sagt að við eigum að sætta okkur við þá stöðu. „Þetta er raunverulegt vandamál og við þurfum ekki að láta sérhagsmunaöflin sigra alltaf, þó að það sé oftast tilhneiging til þess. Þau eru oftast einbeittari heldur en þeir sem eru að verja almennu hagsmunina. Og oft miklir fjármunir undir sem menn geta lagt í að fá til dæmis einhverjar breytingar á regluverki í gegn sem þjóna hagsmunum eins hóps, en ekki hins breiða fjölda.“
Þetta kom fram í viðtali við Gylfa í Kastljósi í kvöld.
Útgerðin mjög skýrt dæmi
Ásgeir sagði í viðtali við Stundina í síðustu viku að Íslandi væri „að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá“.
Aðspurður um hvaða hagsmunahópar þetta séu helst segir Gylfi erfitt að telja þá alla upp. Það sé þó ekki annað hægt en að horfa sérstaklega til útgerðarinnar og baráttunnar um auðlindagjaldið í þessum efnum. „Það er auðvitað mjög skýrt dæmi um mjög harkalega sérhagsmunabaráttu.“
Hefur áhyggjur af fjölmiðlum
Gylfi sagði það eilífðarverkefni að takast á við þessa stöðu. Ýmislegt væri hins vegar hægt að gera til að hjálpa til í baráttunni við þessa stefnu.
Þar mætti nefna opið og gagnsætt samfélag með sterkum fjölmiðlum sem gæti gert það erfiðara fyrir sérhagsmunahópa að komast upp með sitt þannig að aðrir frétti ekki af því. Það ásamt sterku lýðræðis- og dómskerfi. „Við höfum áhyggjur af því að við séum að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum hvað varðar fjölmiðlafrelsi.“
Þar vísar Gylfi til þess að í efsta sæti vísitölu Blaðamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi, fimmta árið í röð, er Noregur. Finnland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja sæti og Svíþjóð í fjórða sæti.
Ísland situr hins vegar í 16. sæti á lista samtakanna og fellur um eitt sæti á milli ára. Alls hefur Ísland fallið um sex sæti frá 2017.
Athygli vekur að í öllum þessum ríkjum er umfangsmikill ríkisstuðningur við einkarekna fjölmiðla.