„Við, samstarfsmenn hans í Háskóla Íslands í gegnum árin, höfum mörg staðið í þessum bardögum,“ segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, spurður hvort að hann þekki þá lýsingu Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra, að hagsmunahópar stýri Íslandi og að erfitt sé að lenda uppi á kant við þá. Ásgeir lét þessi ummæli falla í viðtali við Stundina nýverið og viðbrögðin við því hafa ekki látið á sér standa.
Gylfi, sem var gestur þáttarins Sprengisands á Bylgjunni í morgun, rifjaði í þessu sambandi upp þegar hann ásamt kollega sínum í Háskóla Íslands talaði síðasta sumar og haust fyrir almannahagsmunum í sóttvörnum; að passa ætti upp á landamærin og hafa þjóðlífið innanlands sem eðlilegast. „Það var rimma við sérhagsmuni,“ segir Gylfi og bendir á að sérhagsmunir væru þá það sem gengi á skjön við almannahagsmuni. Í þessu tiltekna tilviki voru það samtök í ferðaþjónustu sem vildu hafa landamærin sem mest opin, sem er að mati Gylfa „algjörlega misskilin hagsmunabarátta því það skemmir ekkert meira fyrir [ferðaþjónustunni] en að hafa farsótt innanlands“.
Aðrir kollegar Gylfa hafa bent á að skipting á rentunni af sjávarútvegi sé ekki réttlát. „Það hefur verið áratuga hagsmunarimma.“ Enn aðrir hafa bent á hvernig auka mætti hagkvæmni í landbúnaði. „Svo þetta er búið að vera í fleiri áratugi hér á landi,“ segir Gylfi en að slíkt hið sama sé uppi á teningnum víða erlendis. „Þetta er úti um allt.“
Það sem hins vegar skipti máli sé að „stjórnvöld hugsi um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni. Þetta verður auðvitað að spillingu ef sérhagsmunirnir ná að umbuna einstökum stjórnmálamönnum í staðinn fyrir greiða. Það er spilling.“
Það sem Gylfa fannst skrítið við fréttaflutning af ummælum Seðlabankastjóra voru ekki orð hans heldur viðbrögðin sem þau fengu. „Það var eins og það væri búið að finna upp hjólið.“ Svo þekkta segir hann þessa hagsmunabaráttu vera.
Spurður hvort að veist væri persónulega að sérfræðingum sem tjá sig um ákveðin mál. „Það er smá stríðskostnaður,“ svarar Gylfi. Sérfræðingar hafi ákveðnum skyldum að gegna að rétta upp „rauð flögg“ telji þeir tilefni til. „Stríðskostnaðurinn felist m.a. í því að fá „á sig bunur í dagblöðunum,“ segir Gylfi. „Þessir hagsmunaaðilar eiga dagblöðin.“ Það sama geti verið uppi á teningnum í „netheimum“. Hann segir þennan stríðskostnað geta orðið mikinn, „ef að þessir aðilar eru skæðir“ og segist draga sig annað slagið í hlé í opinberri umræðu vegna þessa.