Ætla að knýja olíuborpalla í Norðursjó með vindorku

Á sama tíma og ásókn framkvæmdaaðila í að reisa vindorkuver á landi á Íslandi hefur stóraukist á örfáum misserum eru Norðmenn að undirbúa byggingu fljótandi vindorkuvers í Norðursjó.

Tölvuteiknuð mynd sýnir hvernig Hywind Tampen kemur með að líta út. Olíuborpallur til vinstri á myndinni.
Tölvuteiknuð mynd sýnir hvernig Hywind Tampen kemur með að líta út. Olíuborpallur til vinstri á myndinni.
Auglýsing

Olav-Bernt Haga, framkvæmdastjóri Hywind Tampen, sem er í eigu orkufyrirtækisins Equinor, er reynslubolti þegar kemur að því að þróa nýja tækni til að nýta endurnýjanlega orkugjafa. Hann segir sína nýjustu ástríðu, fljótandi vindorkugarða á hafi úti, eiga eftir að hafa mikla þýðingu þegar kemur að því að ná markmiðum í loftslagsmálum sem ríki heims hafi sammælst um.

Framkvæmdaleyfi fékkst hjá stjórnvöldum fyrir ári síðan. Vindmyllurnar, sem verða ellefu talsins, verða í 190 metra hæð frá yfirborði sjávar og snúningsflötur spaðanna um 160 metrar í þvermál. Þær eru því engin smásmíði. Þær munu sannarlega fljóta í sjónum á steyptum stöplum en þeir verða svo festir við hafsbotninn.

Áætlað er að bygging versins kosti um 4,8 milljarða norskra króna, um 72 milljarða íslenskra króna. Forsvarsmenn Equinor segja verkefnið ekki arðvænlegt þar sem um frumkvöðlaverkefni sé að ræða. Fjármögnunin kemur því að stærstum hluta úr opinberum sjóðum.

Auglýsing

Vindorkuver á hafi úti eru ekki nýtt fyrirbæri. Utan við Holland, Danmörku og Bretland hefur vindmyllum þegar verið komið fyrir á haffletinum en þær eru hins vegar háðar því að vera botnfastar. Eins og gefur að skilja útilokar slík leið virkjun vindsins þar sem mikið dýpi er að finna.

Sá orkugjafi sem helst er notaður á olíuborpöllunum í Norðursjó í dag er jarðgas. Þegar Hywind Tampen verður komið í gagnið mun koltvíoxíðlosun Norðmanna, að sögn forsvarsmanna versins, minnka um 200 þúsund tonn árlega. Það jafnast að þeirra sögn á við losun 100 þúsund bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti.

Orkuverinu er einnig ætlað það hlutverk að vera tilraunaverkefni til framtíðar við þróun vindorkunýtingar á hafi úti. „Þetta verður stór iðnaður í framtíðinni,“ heldur Haga fram, „og Norðmenn eru þegar orðnir langfremstir“.

Vindmyllurnar í Hywind Tamper verða á steyptum stöpli, einhvers konar flotholti. Mynd: Equinor

Haga lýsir uppsetningu vindorkuversins þannig að í kjölfar hönnunar- og þróunarferlis síðustu ára og áratuga hefjist bygging þess í ár og í byrjun þess næsta verði allir „legó-kubbarnir“, eins og hann orðar það í grein sem birt er á Aftenposten, settir saman og vindmyllurnar, ein og ein í einu, fluttar frá Gulen, bæ á vesturströnd Noregs, og út á Tampen-svæðið í Norðursjó. Þar er að finna fjölda borpalla sem vinna bæði olíu og gas úr hafsbotninum. Áætlanir gera ráð fyrir að á síðasta ársfjórðungi næsta árs verði tveir pallanna farnir að ganga fyrir rafmagni frá Hywind Tampen-orkuverinu að hluta. „Heimsbyggðin mun þurfa á olíu- og gasi að halda í marga áratugi í viðbót,“ segir Haga. Ólíkt því sem margir haldi sé olía ekki aðeins notuð sem orkugjafi á farartæki heldur til allra handa framleiðslu, t.d. á stáli, sementi og í lyfjaiðnaði.

Fjármögnun verkefnisins með opinberu fé er meðal þess sem helst hefur verið gagnrýnt í kringum hið fljótandi orkuver. Flokkur Græningja í Noregi (MDG) segir hið fljótandi vindorkuver í sjálfu sér framfaraskref tæknilega séð en að Hywind Tampen eigi hins vegar að nota til að „grænþvo“ olíu- og gasiðnaðinn í Noregi og gera það á kostnað skattgreiðenda. Talsmaður Græningja sagði í fyrra að ef raunverulegur vilji væri til þess að þróa tæknina ætti að gera það með því markmiði að orkan komi í stað jarðeldsneyta. Í staðinn hafi sú leið verið farin að beintengja orkuverið við olíuiðnaðinn til framtíðar.

Vindmyllurnar verða samtengdar og festar við hafsbotninn með vír. Hywind Tamper Mynd: Equinor

Á Íslandi standa tvær vindmyllur, orkuverið Hafið á vegum Landsvirkjunar. Mikil ásókn er hins vegar í vindorkuverkefni þessi misserin og tugir hugmynda um allt land hafa litið dagsins ljós þótt að þær séu vissulega á mismunandi stigi. Verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar fékk á starfstíma sínum, sem lauk 1. apríl, á fjórða tug tillagna að vindorkuverum inn á sitt borð. Til samanburðar voru slíkar hugmyndir aðeins tvær í síðasta áfanga hennar.

Rammaáætlun er stjórntæki sem hefur það að markmiði að meta, með vísindalegum, samfélagslegum og hagrænum rökum, hvaða svæði sem óskað er eftir að reisa orkuver á, skuli nýta til slíks og hver skuli vernda. Ágreiningur hefur verið uppi, m.a. milli umhverfisráðuneytisins og Orkustofnunar, hvort að vindorkuver skuli fara í ferli rammaáætlunar, ferli sem á að taka fá ár en hefur síðasta tæpa áratuginn, teppst í þinglegri meðferð. Verkefnisstjórnir hvers áfanga eiga að koma með sitt mat í lokaskýrslu til ráðherra. Slík skýrsla var síðast afhent í ágúst 2016 er verkefnisstjórn 3. áfanga lauk störfum. Á grunni hennar byggist þingsályktunartillaga sem lögð var fyrst fram haustið 2016 á Alþingi en hefur enn ekki verið afgreidd, rúmlega fjóru og hálfu ári síðar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra lagði tillöguna fram á þingi í desember og er hann þriðji ráðherrann til að leggja sömu tillöguna fram.

Auglýsing

Í umsögn Skipulagsstofnunar um hana í byrjun árs kom fram að í ljósi þess að hún er byggð á gögnum sem aflað var á árunum 2015-2016 sé tilefni til að yfirfara þá flokkun virkjunarkosta sem þar er sett fram.

Vegna ágreinings um hvort vindorkuver eigi að meta innan rammaáætlunar eða ekki er nú komin upp sú staða að skipulagsferli þeirra hjá sveitarfélögum er í einhverjum tilvikum hafið. Í drögum að breytingu á lögum um rammaáætlun, sem kynntar voru í upphafi árs, er hins vegar lagt til að að til að taka af allan vafa um vindorkukosti verði sérstaklega kveðið á um þann orkugjafa í lögunum og að hugmyndir að vindorkuverum sem yrðu 10 MW eða meira að afli heyri undir rammaáætlun.

„Íslendingar standa á tímamótum varðandi nýtingu orkuauðlinda því virkjun vindorku er að hefjast af fullum krafti,“ skrifar formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar, Guðrún Pétursdóttir, í skýrslu hennar sem kom út í lok mars. „Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki. Landið er hin takmarkaða auðlind í þessu tilfelli.“ Hún bendir á að vindmyllur séu nú um 150 metra háar og fari hækkandi. Þær séu því „afar áberandi“ í landslagi og sjást víða að. „Vindorkuver munu valda miklum breytingum á ásýnd landsins ef ekki verður varlega farið.“

Áhrif vindorkuvera á fugla eru þekkt. Og á Íslandi er fuglalíf fjölskrúðugt. Náttúrufræðistofnun Íslands vildi hafa vaðið fyrir neðan sig þegar áhuginn á vindorkunni var farinn að aukast í Noregi og víðar og undirbúa sig fyrir sömu þróun hér á landi. Í því skyni voru m.a. keyptir sendar til að setja haferni til að kortleggja helstu farleiðir þeirra Jón Gunnar Ottósson, fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar, sagði í ítarlegu viðtali við Kjarnann nýverið að merkilegar niðurstöður væru þegar komnar úr þessum rannsóknum. Í ljós hafi komið að aðalfarleið arna milli Húnaflóa og Breiðafjarðar sé Laxárdalsheiðin. Þar sé nú verið að skipuleggja tvö vindorkuver, „akkúrat í farleiðinni,” sagði Jón Gunnar. Ernir eru einna viðkvæmastir af öllum fuglum Íslands fyrir vindmyllum. „Þannig að miðað við þessar upplýsingar sem við erum að fá núna þá eru þetta ekki góðir staðir fyrir vindorkuver“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Við mölunina eru notuð tæki sem eru búin hnífum eða löngum plastþráðum sem snúast hratt og sjálfvirkt. Afköstin skulu vera, að því er fram kemur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans, nægilega mikil til að tryggja að öll dýrin séu deydd samstundis.
Mölun karlkyns hænuunga „er hryllileg iðja“
Á Íslandi er heimilt að beita tveimur aðferðum við aflífun hænuunga; gösun og mölun. Báðum aðferðum er beitt á tugþúsundir unga á ári. „Allir karlkyns ungar sem fæðast í eggjaiðnaði eru drepnir eftir að þeir klekjast út,“ segir formaður Samtaka grænkera.
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent