Breytt aðalskipulag Reykjavíkurborgar fram til ársins 2040 var samþykkt í skipulags- og samgönguráði borgarinnar á miðvikudag. Þær breytingar hafa helst verið gerðar frá auglýstri tillögu að hæðaviðmið bygginga í Mjódd verður 4-7 hæðir, en hundruð íbúa í grenndinni mótmæltu því að fyrirhugað væri að viðmið um byggðina yrði 5-8 hæðir, eins og Kjarninn sagði frá á dögunum.
Í svari frá borginni við athugasemdum sem settar voru fram af hálfu íbúa í Neðra-Breiðholti er áréttað að aðeins stakar byggingar muni geta notið hámarksheimilda og því sé „hæpin forsenda“ að gefa sér að byggðin verði almennt 8 hæðir eða jafnvel hærri, eins og gert var í sumum innsendum athugasemdum frá íbúum.
Þá segir einnig í svarinu frá borginni að „við mótun byggðar yrði væntanlega leitast við að skala byggðina niður næst hinni lágreistu íbúðarbyggð og lágmarka þannig skuggavarp,“ og að við mótun byggðarinnar á þessu svæði þurfi einnig að gæta að mögulegri útsýnisskerðingu, sem þó sé „erfitt að komast hjá í öllum tilvikum“.
Þéttleikinn væntanlega svipaður og á RÚV-reit
Í þessu svari borgarinnar við athugasemdum íbúa í Neðra-Breiðholti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á reitum í Mjóddinni segir að ekki hafi verið teknar endanlegar ákvarðanir um mögulegan íbúðafjölda né byggingarmagn á svæðinu – og að sú ákvörðun muni meðal annars grundvallast á mati á áhrifum uppbyggingar á grunnskóla og áhrifum á samgöngur.
„Miðað við þau þéttleikaviðmið sem gefin eru upp vegna nálægðar við Borgarlínu – m.v. uppgefið hámark – þá yrði meðal þéttleiki á svæðinu fullbyggðu svipaður og er á RÚV-reit í dag,“ segir í svarinu frá borginni og er þá vísað til þeirra íbúðarhúsa sem hafa sprottið upp á síðustu árum við hlið Útvarpshússins í Efstaleiti.
Blásið á hugmynd um matvöruverslun á bílaplani Bauhaus
Eins og Kjarninn sagði nýlega frá vildi fasteignafélagið Lambhagavegur, sem á húsnæðið sem hýsir byggingarvöruverslunina Bauhaus, fá leyfi til þess að byggja nýjan 3.-4.000 fermetra verslunarkjarna með matvöruverslun og annarri þjónustu á bílaplaninu framan við Bauhaus.
Skipulagsyfirvöld taka heldur fálega í þá hugmynd, samkvæmt svari við innsendu erindi Bauhaus. Í því svari segir að einkenni starfsemi og skipulags á svæðinu sé þess eðlis að svæðið uppfylli ekki skilyrði þess að vera borgarhlutakjarni fyrir viðkomandi borgarhluta.
Vegna þessa, og í samræmi við það markmið stefnu um matvöruverslanir sem sé í aðalskipulagi borgarinnar – „að þær séu einkum innan íbúðarbyggðar eða í fjölbreyttum kjörnum í jaðri hennar“ – er ekki gert ráð fyrir heimildum um nýjar matvöruverslanir á umræddu svæði.