Á síðastliðnum tólf mánuðum hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 9,3 prósent. Á sama tímabili hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 2,5 prósent, samkvæmt gögnum Þjóðskrár um fasteigna- og leigumarkaði. Yfir lengra tímabil, eða frá ársbyrjun 2011, hefur verð fasteigna og leigu þó hækkað nánast jafn mikið, en hægt hefur á hækkun leiguverðs að undanförnu.
Þjóðskrá Íslands birti í vikunni upplýsingar um fasteignaverð og leiguverð í september síðastliðnum. Íbúðaverð hækkaði milli mánaða um 1,2 prósent en leiguverð um 0,3 prósent.
Línuritið sýnir þróun leiguverðs og íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinum eins og það birtist í mælingum Þjóðskrár, sem heldur úti vísitölum um báða markaði. Eftir hækkanir leiguverðsvísitölunnar umfram fasteignaverðsvísitöluna þá hefur sú síðar nefnda nú tekið fram úr. Eins og sjá má á myndinni, þá nema verðhækkanir ríflega 40 prósentum á þessu tímabili.