Listamennirnir Libia Castro og Ólafur Ólafsson ásamt Töfrateyminu hafa hafa sett upp nýtt veggverk við undirgöng sem ganga undir Reykjanesbraut í grennd við Lækjarskóla í Hafnarfirði. Veggurinn sem varð fyrir valinu er Töfrateyminu ekki með öllu ókunnugur því hópurinn hafði áður málað veggverk fyrir ofan undirgöngin sem samanstóð af orðunum „Við eigum nýja stjórnarskrá!“ Líkt og Kjarninn fjallaði um í lok ágúst þá var málað yfir umrætt verk eftir að yfirkjörstjórn Hafnarfjarðar komst að þeirri niðurstöðu í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að verkið mætti túlka sem kosningaáróður en líkt og áður segir eru undirgöngin í grennd Lækjarskóla sem er kjörstaður í Hafnarfirði.
Nýja verkið er tiltölulega skylt hinu eldra verki og fjallar beinlínis um örlög verksins sem áður prýddi vegginn. Verkið sýnir tvær hænur sem ræðast við, önnur hænan hrópar: „Það bara má ekki minnast á nýju stjórnarskrána!!“ og því svarar hin hænan með orðunum: „Oh! Nú verður málað yfir okkur“.
Veggjalist fengið að þrífast þarna í mörg ár
Ólafur Ólafsson segir nýja verkið vera beint framhald af hinu eldra. „Þetta er framhald af því verki og viðbragð við aðgerðum yfirkjörstjórnar sem okkur þykja vera óréttmætar og furðulegar. Verkið útskýrir sig svo nokkurn veginn sjálft, þær eru að velta þessu fyrir sér, þessari sögu. Þær eru skelkaðar yfir því hvort það verði málað yfir þær, hvort þær fái að standa,“ segir Ólafur.
Ólafur segist ekki viss um hvað yfirvöld í Hafnarfirði kunni til bragðs að taka þegar hann er spurður að því hvort hann sé vongóður um að hænurnar fái að lifa á veggnum til frambúðar. Í því samhengi bendir hann á að í „fleiri ár“ hafi veggjalist fengið að þrífast umhverfis undirgöngin. „Ég kenndi einmitt vegglistakúrs á vegum Hafnarfjarðarbæjar fyrir mörgum, mörgum árum og þá vorum við einmitt að mála í þessum og önnur göng í nágreninnu. Það hafa alltaf verið vegglistaverk þarna allar götur síðan.“
Nýja verkið er enn eitt innlegg Libiu og Ólafs í umræðuna um nýja stjórnarskrá sem hefur verið endurtekið stef í listsköpun Libiu og Ólafs. „Þetta er framhald verks sem var þar áður. Sem er hluti af áframhaldandi verki, Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland eftir Libiu, mig og Töfrateymið. Það var veggverk yfir þessum göngum þar sem var málað “Við eigum nýja stjórnarskrá!” sem vitnaði í bleikan borða sem við hífðum upp fyrir framan Alþingi við lok gjörnings okkar 3. Október 2020,“ útskýrir Ólafur.
Tíu ár frá þjóðaratkvæði um stjórnarskrártillögur
Gjörningurinn sem um ræðir var umfangsmikill viðburður sem unnin var í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Á vef safnsins segir meðal annars um verkið: „Myndlistartvíeykið Libia Castro & Ólafur Ólafsson fá til liðs við sig hóp ólíkra tónskálda, innlendra og erlendra, tónlistarfólks, samtaka, aðgerðarsinna og almennra borgara til þess að skapa í samstarfi fjölradda tónlistar- og myndlistargjörning við allar 114 greinar nýju íslensku stjórnarskrártillögunnar frá 2011.“ Fyrir gjörninginn Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland voru Libia og Ólafur útnefnd listamenn ársins við afhendingu Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2021.
Nýja verkið með hænunum var málað í gær og er tímasetningin engin tilviljun því á morgun verða liðin tíu ár frá því að kosið var um tillögur stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þess vegna kemur þetta verk núna í aðdraganda stórafmælis þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem haldin var 20. Október 2012,“ segir Ólafur og bætir við: „Á fimmtudaginn verða tíu ár frá því að við kusum okkur nýja stjórnarskrá með skýrum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í 10 ár hefur alþingi hunsað niðurstöðu þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Aðspurður segist Ólafur ætla að halda upp á afmælið á Austurvelli. „Við hvetjum alla til að mæta á fimmtudaginn á Austurvöll klukkan fimm og fagna með okkur og fá sér 10 ára afmælisköku,“ segir listamaðurinn en Stjórnarskrárfélagið hefur efnt til afmælisfagnaðar á Austurvelli í tilefni þessara tímamóta.