Styttri sölutími eigna, minnkandi framboð og aukinn vöxtur útlána tili heimila er áhyggjuefni að mati meirihluta nefndarmanna í fjármálastöðugleikanefnd. Þetta kemur fram í fundargerð frá síðasta fundi nefndarinnar sem nú hefur verið birt á vef Seðlabankans en fundurinn fór fram í lok júní. Meirihluti nefndarmanna taldi þróunina á fasteignamarkaði benda til vaxandi ójafnvægis, líkt og það er orðað í fundargerð.
Eftir umfjöllun um fasteignamarkaðinn bar seðlabankastjóri tillögu um að veðsetningarhlutfall fasteignalána til neytenda yrði lækkað úr 85 prósentum í 80 prósent en hlutfallið fyrir fyrstu kaupendur yrði óbreytt í 90 prósentum. Tillagan var samþykkt einróma af nefndinni. „Var það mat nefndarinnar að ofangreind aðgerð væri til þess fallin að vernda viðnámsþrótt lántaka og lánveitenda og vinna gegn aukningu kerfisáhættu. Nefndarmenn samþykktu einnig að skoða nánar beitingu á greiðslubyrðarhlutfallinu og var Seðlabankanum falið að vinna að útfærslu þess.“
Greiðslugeta fólks mögulega ofmetin
Líkt og áður segir höfðu nefndarmenn áhyggjur af stöðunni á fasteignamarkaði. „Eftirspurn hefði aukist samhliða hækkandi ráðstöfunartekjum og lágum vöxtum. Hækkandi fasteignaverð og sögulega lágir vextir gæti leitt til þess að greiðslugeta væri ofmetin. Það ásamt horfum um að framboð haldi ekki í við eftirspurn á næstu misserum gæti skapað skilyrði fyrir skuldadrifinni hækkun fasteignaverðs,“ segir í fundargerð.
Einn nefndarmaður taldi að aukin eftirspurn og hækkun verðs væri afleiðing af tímabundnu ástandi sem skapast hefði vegna farsóttarinnar og að vísbendingar væru um að tekið væri að hægja á hækkununum.
Nefndarmenn töldu að beiting þjóðhagsvarúðartækja á markaðinn ætti ekki að hafa verulega þvingandi áhrif á markaðinn eins og staðan væri um þessar mundir. Notkun þeirra gæti þó haft fyrirbyggjandi áhrif. „Hins vegar væri mögulegt að hafa fyrirbyggjandi áhrif með beitingu þeirra á komandi mánuðum og draga úr líkum þess að skuldsetning heimila á fasteignamarkaði yrði umfram getu þeirra til að standa undir greiðslubyrði lána til meðallangs tíma. Þá gæti beiting þjóðhagsvarúðartækja einnig dregið úr líkum á að fasteignaverð leiti verulega frá þeim undirstöðuþáttum sem alla jafnan ráða þróun þess til lengri tíma.“
Aldrei fleiri íbúðir selst yfir ásettu verði
Líkt og nefndin fjallaði um er eftirspurn eftir fasteignum mikil og verð hefur hækkað hratt að undanförnu. Í síðustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem kom út fyrr í þessum mánuði kom fram að um þessar mundir selst metfjöldi íbúða yfir ásettu verði. Í maí síðastliðnum seldust 32 prósent íbúða yfir ásettu verði. Hæst var hlutfallið fyrir sérbýli á höfuðborgarsvæðinu en 42,7 prósent slíkra eigna seldist á yfirverði.
Þá hefur hækkun fasteignaverð verið meiri en hækkun kaupmáttar „Mikil eftirspurn mælist nú eftir húsnæði og hefur það sett mark sitt á helstu hagvísa á fasteignamarkaði. Hækkanir á fasteignaverði eru áfram meiri en sem nemur aukningu kaupmáttar undangengna mánuði. Svokölluð vísitala paraðra viðskipta hefur hækkað um 18,3% fyrir sérbýli og 17,1% fyrir fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu undangengna tólf mánuði. Á landsbyggðinni hækkaði sérbýli um 14,5% og fjölbýli um 4,6%,“ segir á vef HMS.
Sölutími íbúða hefur líka styst. Hann er nú að 38 dagar að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu en 78 dagar á landsbyggð. Á vef HMS segir að talað sé um seljendamarkað ef sölutími íbúða er styttri en þrír mánuðir en kaupendamarkað ef sölutíminn er lengri en sex mánuðir. „Þessar tölur benda því til þess að nú sé sterkur seljendamarkaður á höfuðborgarsvæðinu.“