Rafbílaframleiðandinn Rivian var skráður á markað í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum og er nú, þrátt fyrir að hafa einungis framleitt nokkur hundruð rafbíla, einn verðmætasti bílaframleiðandi heims. Í gær var markaðsvirði fyrirtækisins nærri 130 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði um 17 þúsund milljarða íslenskra króna.
Það var enn hærra fyrr í vikunni, en þá skaust markaðsvirði félagsins meira að segja upp fyrir verðmæti Volkswagen – og Rivian varð þar með þriðji verðmætasti bílaframleiðandi í heimi. Einungis Tesla og Toyota voru ofar.
Í fyrradag dalaði hlutabréfaverð félagsins þó nokkuð, í fyrsta sinn frá skráningu félagsins þann 11. nóvember og þarf Rivian að gera sér það að góðu að vera sjötta verðmætasta fyrirtækið í bílabransanum, samkvæmt samantekt á vefnum companiesmarketcap.com.
En hvernig má það vera að fyrirtæki sem hefur selt sárafáa bíla og á eftir að koma allri sinni fjöldaframleiðslu almennilega af stað geti talist svona verðmætt? Sérfræðingar sem fylgjast grannt með á þessum markaði klóra sér sumir í höfðinu yfir því. Í hlaðvarpsþætti Financial Times í gær var spurningunni velt upp og sagði blaðamaðurinn Peter Campbell að einfaldast væri að lýsa verðmati fyrirtækisins sem hálfgerðri klikkun.
„Stutta svarið er að þetta er algjörlega klikkað, út frá öllum þeim mælikvörðum sem notaðir eru til að verðmeta fyrirtæki; tekjum, hagnaði og öðru,“ sagði Campbell í þættinum, en benti síðan á að það virtist einfaldlega vera mat markaðsaðila að rafbílaframleiðendur væru mun verðmætari en hefðbundnir bílaframleiðendur í dag.
Það er ekki ofsögum sagt. Trú fjárfesta á rafmagnaðri framtíð bílabransans virðist gífurleg og margir virðast tilbúnir að taka áhættu og fjárfesta í fyrirtæki eins og Rivian, sem gæti ef til vill flogið með himinskautum líkt og Tesla – sem er metið á yfir billjón bandaríkjadali sem sakir standa.
Stórir fjárfestar virðast líka hafa mikla trú á rafbílum Rivian. Amazon-veldið á 20 prósent hlut í fyrirtækinu og hefur samið við Rivian um framleiðslu á 100 þúsund rafknúnum sendibílum fram til ársins 2030. Bílaframleiðandinn Ford er líka nokkuð stór hluthafi í Rivian, þrátt fyrir að vera reyndar í beinni samkeppni á markaðnum fyrir rafknúna pallbíla.
Annað bandarískt fyrirtæki sem einbeitir sér að framleiðslu rafbíla, Lucid Motors, var einnig nýlega skráð á markað og er líka á lista yfir tíu verðmætustu bílaframleiðendur heimsins, þrátt fyrir að hafa til þessa selt sárafáa bíla.
Í gær nam markaðsvirðið röskum 84 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði 11 þúsund milljarða íslenskra króna. Fyrstu tuttugu sportbílarnir úr smiðju fyrirtækisins voru afhentir í lok októbermánaðar og glæddist hlutabréfaverðið verulega um sama leyti og það var tilkynnt.
Hið sama blasir hins vegar við bæði Lucid Motors og Rivian – fyrirtækin eiga enn eftir að koma fjöldaframleiðslu sinni á rafknúnum ökutækjum almennilega af stað. Það er alls óvíst hversu vel það mun ganga og samkeppnin á einungis eftir að harðna.