Félagið Gerosion Ltd. áformar að byggja verksmiðju til endur- og áframvinnslu kerbrota á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit þannig að þau nýtist í sementsiðnaði. Í henni yrðu endurunnin kerbrot frá innlendu álverunum þremur en hugsanlega yrðu einnig flutt inn kerbrot til að fullnýta afkastagetu verksmiðjunnar, reynist það hagkvæmt. Í dag er minna en helmingur allra kerbrota í heiminum endurunninn og ekkert af þeim brotum sem falla til við framleiðslu álvera á Íslandi.
„Olnbogabarn“ álframleiðslunnar
„Það er ljóst að bygging umræddrar verksmiðju fellur ekki að stefnu og framtíðarsýn Hvalfjarðarsveitar,“ segir í umsögn sveitarstjórnar við fyrirspurn félagsins um matsskyldu til Skipulagsstofnunar. „Það er þó ljóst, að förgun kerbrota er vandræðamál, og má kannski segja að þau séu ákveðið olnbogabarn þegar kemur að álframleiðslu í heiminum. Mögulega er engin aðferð góð við endurvinnslu, urðun eða förgun og því nauðsynlegt að finna skástu mögulegu lausn.“
Framleiðslugeta verksmiðjunnar er áætlun 30-35 þúsund tonn á ári og kæmi ein afurð úr ferlinu, svokallað HiCal-efni sem notað er í sementsiðnaði m.a. í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Hjá álverunum Alcoa Fjarðaáli, Norðuráli og Rio Tinto í Straumsvík falla til um 18-20 þúsund tonn af kerbrotum á ári. Hingað til hafa þau verið urðuð, annars vegar í svokölluðum flæðigryfjum á Grundartanga og í Straumsvík og hins vegar flutt út til Noregs þar sem þau eru urðuð í gamalli námu.
Miðað við áformaða afkastagetu verksmiðjunnar þyrfti að flytja inn umtalsvert magn kerbrota frá öðrum heimshornum og sömuleiðis þyrfti að flytja lokaafurðina, HiCal, til sömu markaða.
Á heimsvísu falla til í álverum um 1,5 milljón tonna af kerbrotum árlega. Kerbrot eru flokkuð sem spilliefni sem gerir meðhöndlun þeirra erfiða.
En hvaðan koma þessi kerbrot?
Álver framleiða ál með því að rafgreina súrál í rafgreiningarkerum. Kerin hafa hins vegar aðeins ákveðinn líftíma, um 4-7 ár. Að þeim tíma loknum eru þau endurfóðruð, kerbrot falla því til þegar fóðringar eru brotnar innan úr þeim. Að meðaltali falla til 22 kíló af kerbrotum fyrir hvert framleitt tonn af áli.
„Sífellt erfiðara er að finna kerbrotum farveg,“ segir í fyrirspurn Gerosion Ltd. til Skipulagsstofnunar, „og er nú svo komið að Fjarðaál flytur sín kerbrot úr landi til Langöen í Noregi, til urðunar í gamalli kalknámu. Hin tvö álverin urða sín kerbrot og annan úrgang ennþá í flæðigryfjur í sjó við Íslandsstrendur.“
Endurvinnsluferlið umbreytir kerbrotum, sem eru spilliefni og falla undir reglur um flutning á hættulegum efnum, yfir í vöru sem sé ekki spilliefni og falli því ekki undir flutning slíkra vara, segir í fyrirspurninni. „Með þessu verkefni er verið að taka ábyrgð á úrgangsmálum á Íslandi og stuðlað að verðmætasköpun úr vandræðasömum spilliefnaúrgangi. Með endurvinnslu kerbrota minnka urðuð spilliefni á Íslandi um rúmlega 70 prósent og stórt skref er tekið í átt að hringrásarhagkerfinu.“
Eftir frumskoðun komi iðnaðarsvæðið á Grundartanga helst til greina fyrir verksmiðjuna.
Tvö álver á undanþágu - bæði á Íslandi
Aluminium Stewardship Initiative (ASI) vottar álframleiðslu í heiminum. Til að geta fengið þá vottun má ekki urða iðnaðarúrgang í flæðigryfjum. Aðeins tvö álver í heiminum eru með undanþágur frá reglum staðalsins: Norðurál og Rio Tinto.
Skaðlegustu efnin í kerbrotunum eru síaníð og flúor-efnasambönd. Komist vatn í kerbrot geta þessi efni losnað út í umhverfið. Einnig geta kerbrot gefið frá sér hættulegar og sprengifimar gastegundir ef þau blotna. „Af þessari ástæðu þarf að vakta umhverfið vel í kringum urðuð kerbrot til þess að tryggja að skaðleg efni komist ekki út í umhverfið,“ er bent á í fyrirspurn Gerosion.
Kerbrotin eru misstór er þau koma til endurvinnslu. Þar eru þau smækkuð með glussadrifnum brjótum sem veldur talsverðri rykmyndun. Rykið fer í gegnum rykskiljur og síur. Því er svo safnað saman og nýtt í HiCal-afurðina.
Þegar búið er að smækka brotin eru þau flutt í ofn þar sem þau eru meðhöndluð við 600-800 gráðu hita. Við þetta myndast koltvísýringur og köfnunarefni.
Kerbrotin úr álverunum yrðu flutt með vörubílum að verksmiðjunni og afurðin úr landi með skipum frá Grundartangahöfn.
„Ef af framkvæmdinni verður mun Norðurál hætta að setja kerbrot í flæðigryfjur á Grundartangasvæðinu,“ bendir Gerosion ennfremur á. Flúormagn kerbrota sem í dag eru urðuð í flæðigryfjum er áætlað um 900 tonn á ári. Verksmiðjan í fullum afköstum myndi losa um 260 kg af flúori á ári. Miðað við hámarksafköst yrði útlosun brennisteinstvíoxíðs um 2.600 kíló á ári.
„Það er mat framkvæmdaaðila að umhverfisáhrif vegna endurvinnslu á kerbrotum á Grundartanga geti ekki talist umtalsverð í skilningi laga um umhverfismat framkvæmda,“ segir í fyrirspurn félagsins um matsskyldu til Skipulagsstofnunar. „Þessi fyrirhugaða endurvinnsla á kerbrotum mun hafa í för með sér óverulega aukningu á losun á bæði flúori og brennisteini á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Á móti kemur að með þessu verkefni er verið að taka ábyrgð á úrgangsmálum á Íslandi.“
Stefna að heimila ekki nýjar verksmiðjur
Í umsögn sinni bendir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar á að samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé stefnan sú að heimila ekki nýjar verksmiðjur eða iðnaðarfyrirtæki sem hafi í för með sér losun á brennisteinstvíoxíði eða flúor á svæðinu. Þótt magn flúors og brennisteinstvíoxíðs, sem verksmiðjan myndi losa samkvæmt upplýsingum Kerendurvinnslunnar, séu ekki hlutfallslega háar miðað við losun Norðuráls til dæmis „þá er þetta viðbót og því samræmist þessi starfsemi ekki aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar“.
Í nýju aðalskipulagi, sem enn er óstaðfest, kemur auk þess fram í almennum skilmálum fyrir iðnaðarsvæði að áfram skuli draga úr losun frá mengandi starfsemi og að ekki verði heimil ný starfsemi sem losi flúor og brennisteinstvíoxíð.
Um árabil hafa verið starfræktar svokallaðar flæðigryfjur á Grundartanga, reknar á grundvelli starfsleyfa annars vegar Norðuráls og hins vegar Elkem. „Hingað til hefur sú ráðstöfun hlotið náð hjá eftirlitsaðilum og Hvalfjarðarsveit verið talin trú um að nálægð við sjó, og það að sjór flæði um kerbrotin, geri það að verkum að hættuleg efni, eins og sýaníð, bindist þannig að ekki hljótist skaði af fyrir lífríki sjávar,“ segir í umsögn sveitarstjórnarinnar. „Þótt það sé nú líklega ekki talin góð ráðstöfun til langs tíma litið að urðun og landfyllingar sé lausnin, telur Hvalfjarðarsveit rétt að vinna að nánari samanburði þessara aðferða í tengslum við matskyldufyrirspurnina“.
Þegar sé í gangi vinna við umhverfismat nýrra flæðigryfja á Grundartanga og líta þurfi á þessi mál, vega þau og meta út frá kostum og göllum, í samhengi. Meta þurfi allar aðferðir sem mögulegar eru við meðhöndlun kerbrota og endurvinnslu á þeim, hvernig þær hafi reynst og hvað kæmi best út fyrir Ísland. „Það virðist jú ekki vera mikil framtíðarsýn í því að urða kerbrot, sér í lagi ef sú aðferð er háð sérstakri undanþágubeiðni.“
Í nýlegu áliti Skipulagsstofnunar á matsáætlun nýrra flæðigryfja á Grundartanga kemur fram að það geti ekki talist æskileg framtíðarsýn Elkem og Norðuráls að ráðast ítrekað í gerð slíkra gryfja í nýjum landfyllingum til að losa sig við úrgang frá starfseminni. Stofnunin telur því brýnt að endurvinnsla kerbrota verði skoðuð.
En eitt af því sem Hvalfjarðarsveit vill fá skýr svör við er hvaðan kerbrotin sem vinna á í kerendurvinnslunni myndu koma. „Fram kemur að afurðin í endurvinnsluferlinu kallast HiCal og er notað í ofnrekstri innan sementsiðnaðar á mörkuðum fjarri Íslandi, eða í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Jafnframt kemur fram að kerbrot frá íslenskum álverum útvega rétt ríflega helming þess hráefnis sem fyrirhuguð verksmiðja annar. Þá verður restin, til að ná fullum afköstum, innflutt kerbrot mögulega frá Kína, Indlandi, Rússlandi eða annars staðar.“
Kerbrot eru flokkuð sem spilliefni sem gerir meðhöndlun þeirra og urðun erfiða og þau falla undir reglur um flutning á hættulegum efnum. Hvalfjarðarsveit óskar eftir nánari upplýsingum um afurðina, sölumöguleika hennar, hugsanlega kaupendur og verðmætasköpun. Einnig óskar sveitarfélagið eftir samantekt á heildarumhverfisáhrifum að teknu tilliti til flutninga og markaða, bæði kerbrotanna og afurðarinnar, svo framleiðslan uppfylli markmið um hringrásarhagkerfið og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að minnka úrgang, auka endurvinnslu, draga úr sóun og stuðla að verðmætasköpun eins og fram kemur í fyrirspurninni.
„Það er ljóst að bygging umræddrar verksmiðju fellur ekki að stefnu og framtíðarsýn Hvalfjarðarsveitar og því telur sveitarfélagið ekki tímabært að svara spurningum um hvaða leyfum framkvæmdin er háð. Sé óskað eftir því hvort Hvalfjarðarsveit telji að framkvæmdin fari í umhverfismat, þá er það niðurstaða sveitarfélagsins að svo sé, í ljósi þess umfangs iðnaðar sem nú þegar er á Grundartanga og vegna þeirra atriða sem hér að framan eru talin.“