Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) hafa óskað eftir opinberri rannsókn lögreglustjórans á Norðurlandi eystra vegna meintra brota á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og náttúruverndarlögum. Málið snertir gerð þriggja stíga í Jökulsárgljúfrum sem samtökin telja óheimila og ekki samræmast stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins, deiliskipulagi og lögum.
Kæru samtakanna, sem send var lögregluembættinu í gær, er beint gegn tveimur einstaklingum; Guðmundi Ögmundssyni, þjóðgarðsverði á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs (Jökulsárgljúfrum) og Guðmundi Vilhjálmssyni, persónulega og sem framkvæmdastjóra og aðaleiganda Garðvíkur ehf.
Í kærunni, sem Kjarninn er með undir höndum, eru atvik máls rakin ítarlega.
Sumarið 2020 fóru fram framkvæmdir við þrjá nýja stíga; á Langavatnshöfða, frá Ási og í Ásbyrgi, allt á rekstrarsvæði norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Verktaki var Garðvík ehf. á Húsavík.
Skipaður fulltrúi umhverfisverndarsamtaka í svæðisráði þjóðgarðsins vakti athygli ráðsins á framkvæmdunum 2. maí síðastliðinn og óskaði eftir að farið yrði á vettvang, en einnig að stígagerðin yrði tekin fyrir á næsta boðaða svæðisráðsfundi. Formaður svæðisráðs, sem einnig situr í stjórn þjóðgarðsins, varð við beiðni um að ganga á vettvang með fulltrúanum, varamanni hennar og þjóðgarðsverði. Leitaði fulltrúi umhverfisverndarsamtaka ítrekað eftir því að málið yrði tekið á dagskrá svæðisráðsins og var það loks gert 29. júní. Var þar bókað eftirfarandi varðandi einn af þeim stígum sem um ræðir:
Svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs norður telur að lagfæra verði hjólastíg og reiðleið í Jökulsárgljúfrum sem unninn var upp sumarið 2020 og frágang efnis við hann. Stígurinn er um fjórir kílómetrar að lengd og liggur í suðurátt frá Ási. Grunnur hans er gömul slóð sem notuð hefur verið sem reiðleið síðustu áratugi. Miklu efni hefur verið ýtt upp úr slóðinni og liggur það í stórum hrúgum meðfram stígnum. Bæði er þörf á almennum leiðbeiningum um hvernig æskilegt er að standa að stígagerð í vistkerfi eins og um ræðir og sértækari leiðbeiningum um hvaða frágangur er viðeigandi á því efni sem til hefur fallið.
Í kæru SUNN er fjallað um hvern hinna þriggja stíga fyrir sig og hvernig framkvæmdir við þá og frágangur birtist samtökunum.
Stígur 1, Langavatnshöfði
Í kærunni segir að frá nýju bílastæði á Langavatnshöfða, sem Vegagerðin gerði sumarið 2020, eigi samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Dettifossveg að gera stíg að útsýnisstað yfir Hljóðakletta og Rauðhóla. „Hvorki er búið að merkja fyrir né gera þennan stíg sem deiliskipulag gerir ráð fyrir,“ segir í kæru SUNN en að hinsvegar sé búið að ryðja stíg frá bílastæðinu að eldri gönguleið við Rauðhóla og á allt öðrum stað en deiliskipulag mæli fyrir um. „Búið er að ryðja öllum gróðri, svarðlagi og góðu lagi af jarðvegi úr stígnum og er gengið á mold eftir niðurgröfnum stígnum.“ Efnið sem búið er að ryðja úr stígnum liggi annað hvort í litlum hrúgum meðfram stígnum, á milli þúfna eða því verið „mokað í burtu og ekið langar leiðir utan stígsins og sturtað í stórar hrúgur inn í nærliggjandi víðirunna og birkikjarr“. Út frá stígnum megi sjá greinileg ummerki um akstur vélknúins ökutækis „þar sem gróður eins og lyng, fjalldrapi og víðir hefur drepist“.
Stígurinn er hvorki á deiliskipulagi fyrir Dettifossveg né í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins og því ólögmætur, segja samtökin. Frágangur stígsins sé auk þess ekki í samræmi við náttúruverndarlög og lög um þjóðgarðinn.
Stígur 2, frá Ási
Frá Ási, sem er skammt vestan Ásbyrgis, lá gamall smalatroðningur sem hefur að sögn samtakanna í áratugi verið hluti af merktri reiðleið sem liggur í gegnum þjóðgarðinn. SUNN segir að sumarið 2020 hafi þjóðgarðsvörður ráðist í að láta verktaka gera hluta slóðans einnig að hjólastíg. Er honum, að sögn samtakanna, veitt sérstök heimild stjórnunar- og verndaráætlun til þess að heimila umferð reiðhjóla á tilteknum reiðleiðum eða reiðstígum. „Ekki verður þó með nokkru móti séð að í þeirri heimild felist að breyta reiðleið með framkvæmdum líkt og hér fóru fram, en þjóðgarðsverði er ekki með lögum eða reglum sem um þjóðgarðinn gilda heimilt yfir höfuð að taka ákvarðanir um framkvæmdir,“ bendir SUNN á í kærunni. Segja þau verktaka hafa rutt úr reiðleiðinni „öllum gróðri og svarðlagi alveg niður í mold og rúmlega það á samtals 4,5 km leið“. Öllu efninu hafi rutt út úr gamla smalaslóðanum og skilið eftir í stórum hrúgum, rúmlega 100 talsins, meðfram stígnum.
Stígurinn rúmast að mati samtakanna ekki innan heimilda sem þjóðgarðsverði eru veittar í stjórnunar- og verndaráætlun, enda verði að teljast um hreinar framkvæmdir að ræða en ekki venjulegt viðhald. Þá segja samtökin að frágangur stígsins jafnframt vera „í hrópandi ósamræmi við náttúruverndarlög og lög um þjóðgarðinn“.
Stígur 3, Ásbyrgi
Síðasti stígurinn sem um ræðir er í Ásbyrgi en þar hefur um helmingur stikaðrar gönguleiðar sem liggur frá tjaldsvæðinu og inn í Ásbyrgi verið rudd á sama hátt. Að auki hefur að því er fram kemur í kæru SUNN verið ruddur stígur yfir gamla íþróttavöllinn inni í Ásbyrgi. „Sama verklagi var beitt og áður, öllum gróðri, svarðlagi og hluta af jarðvegi rutt í burtu og ýtt út fyrir stíginn, stundum var efnið falið inni í víðirunnum og birkiskógi og stundum ekki. Til viðbótar bættist við stórgrýti sem nú liggur eins og hráviði meðfram stígnum.“ Einnig benda samtökin á að hvergi sé gert ráð fyrir stíg í gegnum íþróttavöll í stjórnunar- og verndaráætlun og að hann sé heldur ekki í deiliskipulagi.
„Í samræmi við ofangreinda atvikalýsingu og lagatilvísana er þess krafist að ofangreind háttsemi þjóðgarðsvarðar og verktaka verði rannsökuð og fyrir hana ákært í samræmi við tilvitnuð lagaákvæði,“ segir í kæru samtakanna til lögreglu.