Boris Johnson forsætisráðherra Breta var andvígur því að koma á útgöngubanni við upphaf annarrar bylgju kórónuveiru í Bretlandi síðasta haust vegna þess að á þeim tíma voru flestir þeirra sem létust vegna veirunnar á níræðisaldri. Þetta er meðal þess sem kom fram íviðtali BBC við Dominic Cummings frá því í vikunni. Síðasta haust var mikið rætt um það innan bresku ríkisstjórnarinnar að setja á útgöngubann vegna aukins fjölda smita en Johnson var afar mótfallinn hertum sóttvarnaaðgerðum sem verkamannaflokkurinn var farinn að kalla eftir um miðjan október.
„Það er yfir meðallífslíkum. Svo nældu þér í COVID og lifðu lengur,“ á Johnson að hafa sent í textaskilaboðum til Cummings og bætti því við að hann skildi ekki tal um álag á starfsfólk bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS. Að sögn Cummings vildi Johnson heldur að kórónuveiran fengi að ganga laus en að leggja efnahag landsins að veði.
Hafði áhyggjur af drottningunni
Cummings sagði frá því í viðtalinu að hann hefði gripið í taumana þegar Johnson hefði ætlað að funda með Elísabetu Bretadrottningu snemma í faraldrinum en drottningin er komin yfir nírætt. Cummings hefur eftir Johnson frá 18. mars í fyrra: „Ég ætla að hitta drottninguna, það er það sem ég geri á hverjum miðvikudegi. Fjandinn hafi það. Ég ætla að fara og hitta hana.“
Cummings leist ekki á blikuna og segist hafa stöðvað forsætisráðherrann. „Það er fólk sem vinnur hér á skrifstofunni í sóttkví. Þú gætir verið smitaður af kórónuveirunni. Ég gæti veirð smitaður af kórónuveirunni. Þú getur ekki farið og hitt drottninguna. Hvað ef þú myndir svo smita drottninguna af kórónuveirunni? Þú getur augljóslega ekki farið,“ á Cummings að hafa sagt.
Samkvæmt umfjöllun BBC hafnar skrifstofa forsætisráðherrans að þetta hafi gerst en Cummings vill meina að Johnson hafi svarað Cummings með þeim orðum að hann hefði ekki hugsað málið til enda.
Vildi losna við Johnson úr embætti
Í viðtalinu heldur Cummings því fram að Carrie Symonds, sem þá var kærasta Johnson en þau eru nú gift, hafi reynt að hafa áhrif á starfsemi ráðuneytisins. Hún hafi til að mynda viljað að Cummings sem og fleiri embættismenn sem starfað höfðu við Vote Leave herferðina fyrir Brexit yrðu látnir taka pokann sinn. Þessu hefur talsmaður forsætisráðuneytisins hafnað, það sé forsætisráðherrann, og hann einn, sem ráði pólitískum skipunum í ráðuneytinu.
Cummings segir að skömmu eftir þingkosningarnar 2019 hafi farið af stað umræður meðal embættismanna í ráðuneytinu þar sem rætt var að skipta Johnson út fyrir einhvern annan í embætti forsætisráðherra. Spurður að því hvort það geti talist í lagi að ókjörnir embættismenn reyni að skipta forsætisráðherra út, einungis örfáum dögum eftir kosningar segir Cummings: „Þetta er bara pólitík.“