Hagnaður Nova fjarskiptafyrirtækis nam 814 milljónum króna á síðasta ári og jókst um nærri 300 milljónir frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu um 6,2 milljörðum króna og jukust sömuleiðis mikið frá árinu 2013, þegar rekstrartekjur voru 5,3 milljarðar króna. Þetta má sjá í nýlega birtum ársreikningi fyrirtækisins. Honum var skilað til Fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra undir lok síðasta mánaðar.
Nova er annað stærsta farsímafyrirtæki landsins en viðskiptavinir um síðustu áramót voru 136.876 talsins. Þeim fjölgaði um 8,4 prósent á síðasta ári. Félagið er að 94 prósent hluta í eigu Novators ehf. og Novator Telecom Finland, eignarhaldsfélaga í eigu Björgólfs Thors. Framkvæmdastjórar Nova eru Liv Bergþórudóttir og Jóakim Hlynur Reynisson.
Farsímanotkun gjörbreyst – Niðurhalið hjá Nova
Snjallsímarnir hafa á síðustu árum gjörbreytt farsímanotkun og hefur niðurhal gagnamagns fimmfaldast á Íslandi frá árinu 2012, samkvæmt skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar frá því í apríl síðastliðnum. Milli áranna 2014 og 2013 tvöfaldaðist notkunin.
Nova er í algjörum sérflokki meðal farsímafyrirtækja þegar kemur að notkun gagnamagns í gegnum 4G kerfið. Viðskiptavinir Nova sóttu 4.539 milljón megabæt á síðasta ári, eða um 75 prósent alls sótts gagnamagns í farsímum. Segja má að Nova hafi veðjað á réttan hest þegar fyrirtækið ákvað að höfða til yngstu notendanna á árdögum starfseminnar með því að gefa frí símtöl og SMS skilaboð innan kerfis. Sú kynslóð sem þá gekk til liðs við fyrirtækið er síðan orðin fyrsta kynslóð stórnotenda snjallsíma.
Á farsímamarkaði er Síminn enn með mesta hlutdeild. Nova hefur þó sótt hratt að keppinauti sínum og var hlutdeild fyrirtækisins um 32,9 prósent í fyrra, samanborið við 35,7 prósent hlutdeild Símans.