Margt bendir til þess að hagur heimilanna hafi vænkast umtalsvert á síðasta ári og benda tölulegar upplýsingar til að kaupmáttur launa hafi aukist, íbúðaverð hækkað, vinnuaflsnotkun hafi aukist og atvinnuleysið minnkað. Greining Íslandsbanka fjallar um bætta fjárhagsstöðu íslenskra heimila í dag og segir ljóst að staðan hafi ekki verið betri síðan fyrir hrun bankakerfisins 2008.
Í pósti greiningardeildarinnar er bent á að laun hafi hækkað um 5,8% á síðasta ári. Hækkunin hafi verið meiri á árunum 2010 og 2011, en lág verðbólga á síðasta ári hafi gert það að verkum að hækkun launa skilaði meiri kaupmáttaraukningu en sést hefur hér á landi síðan 2007. Kaupmáttaraukning síðasta árs var 3,7% samanborið við 3,8% árið 2007. Það ár var metár síðan Hagstofan hóf að mæla kaupmátt árið 1998.
„Kaupmáttur launa var í lok síðastliðins árs orðinn svipaður og hann var þegar hann var mestur á þensluskeiðinu fyrir hrun bankanna 2008. Hafði hann þá aukist um 15,6% frá því að hann var minnstur eftir hrunið. Segja má að hér sé um markverðan árangur að ræða, a.m.k. ef borið er saman við þá kaupmáttaraukningu sem verið hefur í flestum nálægum ríkjum á sama tíma,“ segir í greiningu bankans.
Minna atvinnuleysi og hærra íbúðaverð
Aðrir mælikvarðar sem greiningardeildin lítur til eru þróun atvinnuþátttöku og íbúðaverðs. Atvinnuleysi minnkaði í fyrra, var 5% að meðaltali samanborið við 5,4% árið 2013 og 6% árið 2012. „Atvinnuleysið er enn nokkuð hátt samanborið við það sem það var fyrir hrunið 2008, en í því sambandi er rétt að hafa í huga að þá var mikil spenna á innlendum vinnumarkaði. Einnig hefur jafnvægisatvinnuleysið aukist í hagkerfinu. Þannig má segja með nokkurri vissu að sá slaki sem myndaðist á innlendum vinnumarkaði í kjölfar hrunsins 2008 sé því sem næst horfinn,“ segir í greiningunni.
Íbúðaverð hækkaði um 8,6% á höfuðborgarsvæðinu í fyrra og er það mesta hækkun íbúðaverðs á svæðinu frá 2007, þegar það hækkaði um 10,8% milli ára. Sömu sögu er að segja af landinu öllu, þar sem verð hækkaði um 8,4%. „Verðhækkun húsnæðis hefur bætt hag þeirra heimila sem eiga sitt eigið húsnæði, sem eru allflest íslensk heimili eða 73% á árinu 2013 samkvæmt könnun Hagstofunnar. Eru 55% heimilanna með húsnæðislán og í flestum tilfellum um verðtryggt lán að ræða. Eiginfjárstaða heimilanna hefur í þessum tilfellum aukist umtalsvert, en verðbólgan var sérstaklega lág yfir síðastliðið ár eða 0,8%.“
Spá áframhaldandi þróun í sömu átt
Greining Íslandsbanka spáir því að hagur heimilanna haldi áfram að batna á þessu ári. „Spáum við því að laun muni hækka um 6,6% yfir þetta ár og að verðbólgan verði 2,0% samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá sem birt var nú um miðjan janúar. Kaupmáttur launa mun því aukast talsvert á árinu gangi þessi spá eftir, þó aukningin verði heldur minni en yfir þetta ár. Einnig reiknum við með því að húsnæðisverð hækki umtalsvert í ár þó við væntum einnig hægari hækkunar þar en á síðasta ár. Raunverð íbúða mun halda áfram að hækka samkvæmt okkar spá. Eiginfjárstaða heimilanna í húsnæði mun því styrkjast enn frekar á þessu ári gangi spáin eftir.“
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 29. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.