Halyna Hutchins, 42 ára kvikmyndatökustjóri, var við störf á tökustað myndarinnar Rust í Santa Fe í Nýju Mexíkó í gær þegar hún varð fyrir skoti úr leikmunabyssu. Alec Baldwin, aðalleikari og einn af framleiðendum myndarinnar, hleypti af skotinu.
Atvikið átti sér stað rétt fyrir klukkan 14 í gær að staðartíma á búgarði við Bonanza Creek þar sem upptökur á vestranum fara fram. Hutchins var skotin í magann og var flutt með þyrlu á sjúkrahús í Nýju Mexíkó þar sem hún lést af sárum sínum. Leikstjórinn Joel Souza varð einnig fyrir skoti en hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Rannsókn lögreglu stendur yfir en ákæra hefur ekki verið gefin út. Baldwin gaf skýrslu fljótlega eftir atvikið að eigin frumkvæði.
Hutchins fæddist í Úkraínu og ólst upp meira og minna á herstöð á norðurskautinu. Hún hóf starfsferil sinn sem blaðamaður en færði sig yfir í kvikmyndageirann eftir að hafa starfað við kvikmyndaframleiðslu á breskum kvikmyndum í Austur-Evrópu. Hún flutti síðar til Bandaríkjanna þar sem hún útskrifaðist úr AFI- kvikmyndaskólanum í Los Angeles árið 2015. Fyrir tveimur árum útnefndu landssamtök kvikmyndatökustjóra hana eina af efnilegustu kvikmyndatökustjórum Bandaríkjanna.
Hutchins virtist kunna vel við sig á búgarðinum þar sem tökurnar fóru fram, að minnsta kosti ef marka má Instagram en á þriðjudag birti hún myndskeið af sér á hestbaki á tökustað.
Heillandi og hæfileikarík mamma
Kvikmyndaheimurinn er í sárum vegna fráfalls Hutchins. Adam Egypt Mortimer, leikstjóri hasarmyndarinnar Archeny, vann með Hutchins við gerð myndarinnar á erfitt með að átta sig á því að svona nokkuð geti gerst. „Halyna var ótrúleg listakona sem var að hefja feril sem ég held að margir voru að taka eftir,“ segir Mortimer í samtali við BBC.
Þá velti hann sér fyrir hvernig svona nokkuð geti gerst, bæði úr frá þeim öryggissjónarmiðum sem tíðkast í kvikmyndaiðnaðinum, auk þess sem hann á erfitt með að átta sig á þeirri staðreynd að Hutchins hafi fallið frá með þessum hætti.
Elskuleg, hlý, fyndin, heillandi og opin. Og fyrst og fremst hæfileikarík. Þannig lýsir Catherine Goldschmidt kvikmyndatökustjóri vinkonu og samstarfskonu sinni. „Hún var einnig mamma, og það er það erfiða,“ segir Goldsmith, sem dáðist að Hutchins fyrir að ná að samtvinna móðurhlutverkið og starfsframann, eitthvað sem konur í Bandaríkjunum hafa þurft að berjast fyrir.
Leikstjórinn og kvikmyndatökustjórinn Elle Schneider minnist Hutchins á Twitter þar sem hún segist orðlaus yfir harmleiknum og krefst hún svara. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem andlát verður á tökustað með þessum hætti en harmleikurinn minnir óneitanlega á dauða leikarans Brandon Lee, son Bruce Lee, sem lést við tökur á kvikmyndinni The Crow árið 1993. Þá reyndist raunveruleg byssukúla vera í skotvopni sem notað var við tökur. Systir Lee vottar aðstandendum Hutchins samúð sína í færslu á Twitter.
Our hearts go out to the family of Halyna Hutchins and to Joel Souza and all involved in the incident on “Rust”. No one should ever be killed by a gun on a film set. Period. 💔
— Brandon Bruce Lee (@brandonblee) October 22, 2021