Þingflokkur Bjartar framtíðar hefur lagt fram frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum í annað sinn. Breytingarnar snúa að hefndarklámi og refsingu þeirra sem flytja inn, aflar eða birtir ljósmyndum eða myndskeiðum sem innihalda hefndarklálm.
Björt Ólafsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en það var fyrst lagt fram í desember í fyrra og var tekið til fyrstu umræðu á Alþingi í febrúar, nokkru áður en #FreeTheNipple-byltingin varð í netheimum. Frumvarpið fékk hins vegar ekki frekari meðferð í þinginu og því er það lagt fram að nýju, án nokkurra breytinga.
#FreeTheNipple-byltingin gekk út á að fólk birti myndir af brjóstum sínum á samfélagsmiðlum og hlaut gríðarlega athygli hér heima og erlendis. Björt sagði í samtali við Ísland í dag í mars að markmiðið með þessari samfélagsmiðlaherferð væri að gengisfella hefndarklám. „Mér finnst brjóst ekkert tiltökumál, þannig lagað séð , en sumum finnst það, og sumir nota brjóstamyndir af stelpum aðallega til þess að kúga þær og smána þær á samfélagsmiðlum,“ sagði hún.
Í ræðu Bjartar, þegar hún mælti fyrir frumvarpinu í febrúar, benti hún á að netið sé „lýðræðisvettvangur 21. aldarinnar“ og að það sé mikilvægt til þess að fólk geti nýtt tjáningarfrelsi sitt. „Það hefur þó einnig sínar myrku hliðar, m.a. af því að á netinu verða einstaklingar, einkum konur, oft fyrir mjög kerfisbundnu ofbeldi.“
Enn fremur segir í greinargerð með frumvarpinu: „Á þetta ekki hvað síst við þegar um er að ræða mynd eða myndskeið sem augljóst er af efninu að ekki er ætlað til dreifingar, svo sem þar sem nekt kemur við sögu eða kynferðislegir tilburðir eða ástand sem augljóst er að einstaklingurinn á myndinni mundi ekki vilja að alþjóð eða heimurinn sjái. Mikilvægt er að fólk taki ábyrgð og taki ekki þátt í að dreifa myndefni sem þessu.“
Alls hafa 17 lagafrumvörp verið lög fram á nýju þingi sem sett var á þriðjudaginn. Sex þeirra eru frumvörp stjórnarandstöðunnar.