Ársreikningaskrá Skattsins sendi á föstudag tilkynningu til 58 félaga sem hafa ekki skilað inn ársreikningi um að ef reikningi verði ekki skilað innan fjögurra vikna muni stofnunin nýta heimild til að láta slíta þeim. Í tilkynningunni segir að engir frekari frestir verði veittir og ef reikningar berist ekki mun krafa um skipti á búi viðkomandi félags verða send til héraðsdóms.
Samkvæmt minnisblaði um framkvæmd þessa sem Skatturinn hefur birt á heimasíðu sinni þá er tilkynning send til félaga sem hafa ekki skilað inn ársreikningi innan sex mánaða frá því að frestur til skila rann út.
Lögbundinn frestur til að skila inn ársreikningi er fyrir lok ágúst mánaðar hvert ár. Stærri félög fá þó lengri frest og eiga að skila fyrir lok septembermánaðar. Alls skiluðu 56 prósent þeirra 42.625 félaga sem eru skilaskyld reikningnum á réttum tíma á síðasta ári.
Félög fá átta mánuði til að skila reikningi eftir að frestur rennur út, og fá tilkynningu frá Skattinum um möguleg slit sex mánuðum eftir það. Því þurfa að vera liðnir 14 mánuðir frá því að skilafrestur rann út þar til að tilkynning um slit er send.
Því liggur fyrir að tilkynningarnar sem Skatturinn sendi út fyrir helgi séu vegna vanskila á eldri reikningum en vegna ársins 2020.
Lág sekt og heimild til slita sem var ekki virkjuð
Það hefur lengi verið vandamál að fá íslensk félög til að skila ársreikningum inn til Skattsins á réttum tíma. Árið 2007 höfðu einungis 15,4 prósent félaga í landinu sem áttu að skila inn ársreikningi gert það á réttum tíma.
Árið 2016 voru innleidd í lög viðurlög við því að skila ekki inn ársreikningi innan setts ramma. Annars vegar átti að vera hægt að sekta félög um 600 þúsund krónur ef þau skiluðu ekki innan átta mánaða og hins vegar átti að vera hægt að slíta þeim ef ársreikningar hefðu enn ekki borist sex mánuðum eftir að átta mánaða fresturinn rann út, eða 14 mánuðum eftir að reikningsári lauk.
Kjarninn greindi frá því í ágúst að Skatturinn hefði svarað því til, eftir fyrirspurn Kjarnans um málið, að heimildinni til að slíta félögum hefði aldrei verið beitt. Ástæðan væri sú að í lögunum komi fram að ráðherra eigi að setja „nánari fyrirmæli um meðferð slíkra mála hjá ársreikningaskrá í reglugerð. Sú reglugerð hafði ekki verið sett þrátt fyrir að rúmlega fimm ár væru liðinn frá því að lögin tóku gildi.
Þetta ákvæði þeirra var því dauður stafur í allan þann tíma.
Á sjötta ár liðið
Eftir umfjöllun Kjarnans um málið komst hreyfing á það og í september birti sá hluti atvinnuvegaráðuneytisins, sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir stýrði á þeim tíma, drög að reglugerðinni í samráðsgátt stjórnvalda.
Ákvæðið varð virkt 18. október 2021, eftir að reglugerðin var loks gefin út.
Kjarninn greindi frá því 10. nóvember síðastliðinn að ársreikningaskrá hefði þá enn sem komið er ekki krafist skipta neinu félagi sem hefði ekki skilað ársreikningi innan lögboðins frests.
Það hefur nú breyst, þegar á sjötta ár er liðið frá því að lögin tóku gildi.
Eitt stærsta fyrirtæki landsins skilaði ekki reikningum
Ástæða þess að Kjarninn spurðist fyrir um málið er að eitt stærsta fyrirtæki landsins, Samherji Holding, hafði ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2019 þrátt fyrir að hafa átt að gera það á árinu 2020. Það ár fengu félög viðbótarfrest til að skila ársreikningi fram í byrjun október, vegna kórónuveirufaraldursins.
Til að átta sig á stærðargráðu fyrirtækisins, sem heldur utan um erlenda starfsemi Samherjasamstæðunnar og eign hennar í Eimskip, þá var eigið fé þess, munurinn á eignum og skuldum, 61,3 milljarða króna í lok árs 2020. Það hefur án efa aukist umtalsvert á síðasta ári, en eignarhluturinn í Eimskip nánast tvöfaldaðist í virði á árinu 2021.
Á meðal þess sem er vistað inni í Samherja Holding er Namibíustarfsemi Samherja, sem er til umfangsmikillar rannsóknar hérlendis vegna meintra mútugreiðslna, peningaþvættis og skattasniðgöngu.
Samkvæmt öllu hefði 14 mánaða frestur Samherja Holding til að skila inn ársreikningi vegna ársins 2019 átt að renna út seint á síðasta ári, eftir að reglugerðin sem heimilaði slit félaga sem ekki skila varð virk.
Samherji Holding skilaði loks ársreikningum vegna áranna 2019 og 2020 þann 30. desember. Þeir voru undirritaðir með fyrirvara vegna óvissu „um málarekstur vegna fjárhagslegra uppgjöra sem tengjast rekstrinum í Namibíu.“ Sá fyrirvari var gerður bæði af stjórn Samherja Holding, sem samþykkti ársreikninginn á aðalfundi sínum í lok desember, og endurskoðanda félagsins.
Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun Kjarnans um ársreikningana hér.