Heimsbyggðin illa undirbúin fyrir hamfaragos – Rannsóknir í Kröflu gætu skipt sköpum

Að hægt verði að draga úr sprengikrafti eldgoss kann að hljóma ógerlegt. En það gerðu líka hugmyndir um að breyta stefnu loftsteina sem talið er mögulegt í dag. Bora á niður í kviku Kröflu í leit að svörum.

Sprengigos varð í eldfjallinu Hunga Tonga í Kyrrahafi um miðjan janúar.
Sprengigos varð í eldfjallinu Hunga Tonga í Kyrrahafi um miðjan janúar.
Auglýsing

Sprengigosið sem varð í eld­fjall­inu Hunga Tonga–Hunga Ha‘apai á eyj­unni Tonga í Kyrra­hafi í byrjun árs er það stærsta sem orðið hefur frá árinu 1991. Það ár varð öfl­ugt gos í eld­fjall­inu Pinatubo á Fil­ipps­eyj­um.

Aska frá Tonga-­gos­inu féll í hund­ruð kíló­metra fjar­lægð og hafði áhrif á inn­viði, land­búnað og fiski­stofna. Sæstrengir fóru í sundur svo fjar­skipti eyja­skeggja við umheim­inn rofn­uðu í nokkra daga. Skemmd­irnar sem af hlut­ust jafn­ast á við um 18,5 pró­sent af lands­fram­leiðslu Tonga. Flóð­bylgjur sem fylgdu gos­inu náðu að ströndum Japan og landa í Suð­ur- og Norð­ur­-Am­er­íku.

Sem betur fer stóð gosið aðeins í um ell­efu klukku­stund­ir. Hefði það varað lengur með til­heyr­andi ösku­falli og gaslosun – svo ekki sé talað um ef það hefði orðið á þétt­býlli stað – hefði það raskað öllum fram­leiðslu­keðjum alþjóða­hag­kerf­is­ins veru­lega, haft gríð­ar­leg áhrif á lofts­lag og ógnað fæðu­ör­yggi. Undir slíkt ham­fara­gos er heims­byggðin illa und­ir­bú­in.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri grein í vís­inda­tíma­rit­inu Nat­ure sem Mich­ael Cassidy, pró­fessor í eld­fjalla­fræði við Háskól­ann í Birming­ham, og Lana Mani, rann­sókn­ar­dós­ent við Cambridge-há­skóla í áhættu­grein­ing­um, rita.

Auglýsing

Í grein sinni fjalla þau ítar­lega um eld­gosið og afleið­ingar þess, sem og spár um næstu sprengigos. Tonga-­gosið ætti að vekja alla til umhugs­un­ar, segja þau. Rann­sóknir úr bor­kjörnum jökla sýni að lík­urnar á gosi á þess­ari öld sem væri 10-100 sinnum stærra en það sem varð á Tonga séu 1 á móti 62. Sagan segi okkur að eld­gos af þeirri stærð­argráðu hafi valdið gríð­ar­legum breyt­ingum á lofts­lagi, koll­varpað menn­ing­ar­heimum og markað upp­haf heims­far­aldra sjúk­dóma.

Þrátt fyrir það, skrifa vís­inda­menn­irn­ir, hefur lítið verið rann­sakað hvaða áhrif slíkt ham­fara­gos gæti haft í dag. Ljóst þyki hins vegar að það myndi setja margt í okkar sam­fé­lögum úr skorð­um, að það gæti ógnað alþjóða­við­skipt­um, mat­væla­fram­leiðslu, orku­vinnslu, fjar­skiptum og öðru sem heldur hinum alþjóða­vædda heimi gang­andi.

Mun meiri líkur á ham­fara­gosi en árekstri loft­steins

Það kann að koma á óvart, miðað við almennan frétta­flutn­ing, að lík­urnar á risa­eld­gosi eru mörg hund­ruð sinnum meiri á næstu hund­rað árum heldur en að loft­steinn skelli á jörð­inni. Umhverf­is­á­hrifin gætu orðið svipuð af þessum tveimur atburðum en áætl­anir um við­bragðs­á­ætl­anir við þeim eru hins veg­ar, skrifa vís­inda­menn­irnir í Nat­ure, gjör­ó­lík­ar.

Hund­ruðum millj­óna Banda­ríkja­dala sé árlega varið til und­ir­bún­ings varna jarð­ar­innar fyrir mögu­legum árekstri við eitt­hvað utan úr geimn­um. Fjöl­margar stofn­anir víða um heim vinni saman að slíkum vörn­um. NASA vinnur t.d. að verk­efni sem miðar að því að finna leiðir til að stýra loft­steinum frá jörð­inni, breyta stefnu þeirra, skyldu þeir nálg­ast hana. Þetta er rán­dýrt verk­efni sem til­raunir verða gerðar með nú í haust. Þær einar munu kosta um 300 millj­ónir dala.

Hins vegar fer lítið sem ekk­ert fyrir sam­hentum aðgerðum stofn­anna til að und­ir­búa við­brögð við ham­fara­gosi, skrifa Cassidy og Mani.

Myndir af eyjunni þar sem eldfjallið Hunga Tonga–Hunga Ha‘apa er að finna. Til vinstri í efri röð: 16. nóvember 2021. T.h. í efri röð: 7. janúar 2022. Til vinstri í neðri röð: 15. janúar 2022 og t.h. 18. janúar 2022.

Menn hafa lengi vitað af ham­fara­gosum for­tíð­ar. Ummerki eftir þau sum hver eru sýni­leg og sögur af áhrifum þeirra hafa geymst í hund­ruð ára. En aðeins nýlega hafa lík­urnar á slíkum gosum í nán­ustu fram­tíð verið reikn­aðar með bestu vís­inda­legu aðferðum sem völ er á í dag.

Sveilfur í magni súlfats eru taldar góður mæli­kvarði til að varpa ljósi á tíðni risa­gosa á jörð­inni hingað til. Í stórum eld­gosum kemst brenni­stein­s­t­ví­oxíðið upp í heið­hvolfið þar sem það getur breyst í súlfat-úða (e. Sulfate aer­osol) sem hindrar inn­komu sól­ar­ljóss til jarðar og hefur því kælandi áhrif á lofts­lag.

Um hund­rað gos haft mikil áhrif á lofts­lag jarðar

Í fyrra rann­sök­uðu vís­inda­menn borkjarna úr ís frá báðum pól­un­um. Í kjarna úr Græn­lands­jökli fund­ust vís­bend­ingar um 1.113 eld­gos og í borkjarna frá Suð­ur­skauts­land­inu fund­ust ummerki um 737 gos. Þessi gos áttu sér stað fyrir 9.000-60 þús­und árum.

Af þessum gosum er talið að 97 hafi að öllum lík­indum haft mjög mikil áhrif á lofts­lag. Nið­ur­staða rann­sókn­ar­innar var sú að ham­fara­gos, um 10-100 sinnum stærra en Tonga-­gos­ið, eigi sér að með­al­tali stað á um 625 ára fresti. Þetta er algeng­ari við­burður en haldið hefur verið fram til þessa.

Eldfjallið Tambora í Indónesíu séð úr lofti.

Síð­asta ham­fara­gosið af þess­ari stærð­argráðu varð í fjall­inu Tam­bora í Indónesíu árið 1815. Talið er að um 100 þús­und manns hafi lát­ist, ýmist vegna flóð­bylgja, hraun­flæðis eða ösku­falls. Gosið hafði þau áhrif að með­al­hiti á jörð­inni lækk­aði um 1 gráðu. Ár án sum­ars, eins og það var kall­að, fylgdi. Upp­skeru­brestur varð í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um. Hungur varð útbreitt og átök brut­ust út. Þá skullu um þetta leyti á sjúk­dóms­far­aldr­ar.

Þekkt er líka að Skaft­ár­eld­ar, sem urðu í Laka­gígum á árunum 1783-1785, ollu breyt­ingum á veðri og gætti áhrif­anna víða um heim.

Margt breyst en sumt til hins verra

Vissu­lega er mun betur fylgst með eld­fjöllum nú en þegar þessi tvö stór­gos urðu. Eld­fjalla­fræðin er gjör­breytt vegna auk­innar þekk­ingar og meiri sér­fræði­kunn­áttu þús­unda manna víðs vegar um heim­inn, m.a. hér á Íslandi. Almenn­ingur er jafnan upp­lýst­ari um mögu­legar nátt­úru­ham­farir en áður og auð­velt er, eins og við Íslend­ingar þekkjum vel, að koma var­úð­ar­orðum til fólks í gegnum allra handa fjar­skipta­tæki, sé þeim til að dreifa. Þá er fæðu­ör­yggi sann­ar­lega betur tryggt í dag en það var fyrir 200 árum þótt stríðið í Úkra­ínu hafi sýnt að það er við­kvæmara en flesta grun­ar. Þá er heil­brigð­is­þjón­usta auð­vitað mun betri en hún var í síð­asta ham­fara­gosi.

Þegar jöklar jarðar bráðna losnar farg af landi og eldgos geta orðið tíðari. Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

En að ýmsu leyti er staðan verri nú en hún var fyrir tveimur öld­um, skrifa Cassidy og Mani í Nat­ure. Sem dæmi þá séu lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum þegar farnar að hafa áhrif, m.a. á loft- og haf­strauma. Þetta gæti, að mati vís­inda­manna, haft marg­vís­legar afleið­ing­ar. Ein er sú að ef risa­stórt eld­gos yrði í hita­belt­inu gæti lofts­lag kólnað hratt, um allt að 60 pró­sent á einni öld frá því sem það er í dag. Súlfat-úði sem verður til í heið­hvolf­inu í stórum eld­gosum gæti þannig unnið gegn hækkun hita­stigs jarðar vegna lofts­lags­breyt­inga en áhrif af slíku ham­fara­gosi á veð­ur­far yrðu lík­lega skyndi­leg og gríð­ar­lega mikil og mis­mun­andi á milli svæða.

Annað sem kann að ger­ast vegna lofts­lags­breyt­inga af manna­völdum er að þar sem jöklar jarðar eru að bráðna hratt losnar farg af landi. Þegar fargið fer gætu eld­gos orðið algeng­ari.

Auglýsing

Þá megi ekki gleyma því að jarð­ar­búar eru átta sinnum fleiri í dag en þeir voru við upp­haf nítj­ándu ald­ar, skrifa vís­inda­menn­irn­ir. Við­skipti milli landa eru lyk­ill­inn að vel­megun flestra ríkja og mun mik­il­væg­ari nú en nokkru sinni áður. Ham­farir á einum stað, líkt og stríðið í Úkra­ínu hefur sýnt, hafa áhrif um allan heim.

Þess vegna, segja vís­inda­menn­irnir í grein sinni, er bráð­nauð­syn­legt að gera áætl­anir um við­bragð við slíkum ham­för­um. Þær þurfi að vinna í sam­vinnu stofn­anna og vís­inda­manna um allan heim. Í þeim þurfi að vera eld­gosa­spár og til hvaða úrræða er hægt að grípa þegar stórt eld­gos hefst á þessum stað jarð­ar­kringl­unnar eða hin­um.

Greina hvaða jarð­ar­búar eru við­kvæm­astir

Rann­sóknir á bor­kjörnum sýndu að 1.300 eld­fjöll hafa gosið á ein­hverjum tíma­punkti á síð­ustu 10 þús­und árum. Það þýðir að þau eru skil­greind sem „virk eld­fjöll“. Hins vegar gætu fleiri verið virk þótt engar upp­lýs­ingar finn­ist um þau í ís heim­skauta­svæð­anna. Þekkt er svo að eld­fjöll sem ekki hafa gosið í meira en 10 þús­und ár vakni af værum blundi. Þetta þarf að kanna ofan í kjöl­inn, að mati vís­inda­mann­anna, og kort­leggja í þaula. Ráð­ast þurfi í miklu öfl­ugri og ítar­legri rann­sóknir á sagn­fræði­legum og jarð­fræði­legum gögn­um. Gera þurfi kjarna­bor­anir á hafs­botni og í stöðu­vötn­um, sér­stak­lega á svæðum sem hafa lítið verið rann­sökuð hingað til.

Einnig ætti að greina hvaða íbúar heims­ins eru við­kvæm­astir þegar kemur að nátt­úru­ham­förum á borð við eld­gos. Gera þurfi úttektir á orku­mál­um, við­skipt­um, innviðum og mat­væla­ör­yggi.

Svifa­sein gervi­tungl

Þá þurfi að vakta þekkt eld­fjalla­svæði, bæði utan úr geimnum og af jörðu niðri, mun betur að mati vís­inda­mann­anna. Gera marg­vís­legar mæl­ingar og þróa áfram leiðir sem nota megi til að spá fyrir um hvort eld­gos sé að hefj­ast.

Cassidy og Mani taka sem dæmi að þegar sprengigosið hófst á Tonga í jan­úar hafi liðið tólf klukku­stundir þar til gervi­tungl Evr­ópu­sam­bands­ins, Sentin­el-1A, náði myndum af þeim breyt­ingum sem orðið höfðu á eld­fjall­inu. Þá var gos­inu raunar lok­ið. Þar sem alltof litlir fjár­munir séu settir í rann­sókn­irnar og gervi­tungl stofn­ana ekki nógu vel útbú­in, ekki nógu mörg og ekki nógu fljót í ferð­um, þurfi vís­inda­menn oft að reiða sig á góð­vild einka­að­ila sem hafi gervi­tungl á sínum snær­um.

Eldgosið í Geldingadölum í fyrra. Mynd: Golli

„Í meira en tvo ára­tugi hafa eld­fjalla­fræð­ingar kallað eftir því að gervi­tungl sem hefur það eina hlut­verk að fylgj­ast með eld­fjöll­um, verði sett á loft,“ segir í grein­inni. Vissu­lega hefur fram­þróun orðið í eft­ir­liti utan úr geimnum en mikið vanti enn upp á.

Vís­inda­menn­irnir hvetja til þess að rann­sóknir á hvort og hvernig megi eyða eða fyr­ir­byggja að súlfat-úði mynd­ist í heið­hvolf­inu verði auknar til muna. „Slíkar rann­sóknir gætu komið í veg fyrir eld­gosa-vetra.“

Að hafa bein áhrif á hegðun eld­fjalla gæti hljó­mað óger­legt verk­efni en það átti einnig við um það að breyta stefnu loft­steina líkt og verk­efni NASA gengur út á, benda þau á.

Og þar kemur eld­fjalla­eyjan Ísland við sögu.

Árið 2024 stendur til að bora niður á berg­kviku við Kröflu. Um er að ræða risa­stórt og fjár­frekt alþjóð­legt verk­efni, Krafla Magma Test­bed, sem vís­inda­menn frá að minnsta kosti níu löndum koma að. Koma á upp mið­stöð lang­tíma­rann­sókna til að auka skiln­ing á jarð­skorp­unni og eld­gos­um. Í grein vís­inda­mann­anna í Nat­ure segir að mark­miðið sé m.a. að reyna að afla þekk­ingar um hvernig megi betur spá fyrir um eld­gos. „Gera ætti einnig rann­sóknir á því hvort mögu­legt sé að hafa áhrif á kviku eða umhverfi hennar til að draga úr sprengi­krafti eld­goss,“ skrifa þau.

„Mun mann­kynið læra af eld­gos­inu á Tonga þar sem lá við ham­förum eða mun stórt gos verða næsti stór­við­burður á eftir heims­far­aldr­inum sem mun koma aftan að okk­ur?“ spyrja þau Cassidy og Mani í lok greinar sin­ar. „Þetta verður að ræða ekki seinna en strax.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiErlent