Helgi Jóhannesson, sem nýverið sagði af sér sem yfirlögfræðingur Landsvirkjunar og hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart nokkrum konum, birti stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld þar sem hann biðst fyrirgefningar á framkomu, orðfæri og hegðun sinni sem hafi látið samferðarfólki hans „líða illa í návist minni“.
Stundin greindi nýverið frá því að Helgi hefði látið af störfum hjá Landsvirkjun eftir að kona hafði kvartað undan hegðun hans. Sú hegðun snerist um óviðeigandi orð auk þess sem hann strauk henni í framan gegn vilja hennar. Í gær greindi fjölmiðillinn frá öðrum máli þar sem Helgi var meðal annars ásakaður um kynferðislega áreitni og er það mál til meðferðar hjá Ferðafélagi Íslands, þar sem Helgi hefur starfað sem leiðsögumaður.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld var svo rætt við konu, Telmu Halldórsdóttur, sem sagði sögu látinnar vinkonu sinnar, Kristínar Pétursdóttur, sem snerist um kynferðislega áreitni af hálfu Helga um síðustu aldamót. Hægt er að lesa frásögn Telmu sem hún birti nýverið á Facebook hér að neðan.
Fyrir nokkrum árum í fyrstu me too bylgju ritaði ég nokkur orð um alvarlegt kynferðislegt áreiti sem besta vinkona mín...
Posted by Telma Halldórsdóttir on Saturday, November 13, 2021
Helgi segir í stöðuuppfærslunni að ásetningur hans hafi aldrei verið sá að meiða eða særa. Honum hafi þó orðið það ljóst að hann hafi „oft og tíðum farið óvarlega í samskiptum, nokkuð sem ég hugsaði ekki út í þegar atvik áttu sér stað. Fyrir það iðrast ég innilega.“
Helgi segist vita að einföld afsökunarbeiðni og iðrun virðist léttvæg undankomuleið úr þeim sárindum sem hann hafi valdið. „ Ég hef þó ekki annað fram að færa og bið þess innilega að fyrirgefningarbeiðni mín verði tekin til greina. Ég er hvenær sem er tilbúinn að hitta hvern þann sem ég hef misgert við með hegðun minni og ræða málið og ítreka afsökunarbeiðni augliti til auglitis.“
Í lok stöðuuppfærslunnar segist Helgi hafa verið að vinna í sjálfum sér undanfarna mánuði með aðstoð fagaðila. „Það er ævilangt verkefni að verða að betri manni og ég er að taka það verkefni alvarlega.“
Helgi var ráðinn til Landsvirkjunnar í júní 2019. Áður hafði hann verið einn af eigendum LEX lögmannsstofu um árabil. Þegar Helgi tilkynnti samstarfsfólki sínu hjá Landsvirkjun um starfslok sín þann 25. október síðastliðinn, eftir rúmlega tveggja ára starf, í tölvupósti þá minntist hann ekkert á að kvartað hefði verið undan hegðun hans.
Tölvupósturinn sem Helgi sendi til samstarfsfólks
Ágætu samstarfsmenn.
Ég vil upplýsa ykkur um að ég hef af persónulegum ástæðum samið um starfslok hjá Landsvirkjun. Tíminn hér hefur verið mjög lærdómsríkur og ánægjulegur, en á sama tíma hef ég lent í óbærilegum áskorunum í einkalífinu. Ég hef enn ekki ákveðið hvað ég tek mér fyrir hendur en er þess fullviss að ýmis tækifæri eru fyrir hendi í þeim efnum. Ég vil þakka ykkur fyrir frábær viðkynni og samstarf og óska ykkur öllum og fyrirtækinu alls hins besta í framtíðinni.
Kveðja, HJ