H.F. Verðbréf hefur gert samstarfssamning við Neuberger Berman Europe Limited um sölu á erlendum sjóðum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá H.F. Verðbréfum sem birt er á vef fyrirtækisins. Neuberger Berman Group er rótgróið eignastýringafyrirtæki sem stofnað var í Bandaríkjunum árið 1939. Fyrirtækið er að fullu í eigu starfsmanna og starfa þar yfir 2.000 manns í átján löndum. Eignir í stýringu nema yfir 250 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega 32 þúsund milljörðum króna. Fyrirtækið býður upp á sjóðaúrval í hlutabréfa-, skuldabréfa-, framtaks- og vogunarsjóðum.
Í upphafi mun H.F. Verðbréf bjóða fagfjárfestum og viðurkenndum gagnaðilum uppá eftirfarandi sjóði frá Neuberger Berman:
- Emerging Market Debt – Hard Currency Fund
- Emerging Market Debt – Local Currency Fund
- Emerging Market Corporate Debt Fund
- Emerging Market Debt Blend Fund
- China Equity Fund
- US Multi Cap Opportunities Fund
- US Long Short Equity Fund
- US Small Cap Intrinsic Value Fund
„Vegna gjaldeyrishafta eru fjárfestingar í sjóðunum takmarkaðar við aðila sem eiga endurfjárfestanlegan gjaldeyri og aðila með undanþágur frá nauðsynlegum ákvæðum laga um gjaldeyrismál,“ segir í tilkynningu vegna samningsins.
H.F. Verðbréf er verðbréfafyrirtæki sem starfað hefur frá febrúar 2004 á grunni starfsleyfis frá Fjármálaeftirlitinu. Fyrirtækið var stofnað 16. desember árið 2003 og sinnir aðallega fagfjárfestum á sviði verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar og er aðili að Nasdaq Iceland kauphöllinni í Reykjavík. Félagið hefur einnig hlotið samþykki sem viðurkenndur ráðgjafi á First North markaðnum.