Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vinnur að því að uppfæra hagsmunaskráningu sína sem borgarfulltrúi í samstarfi við skrifstofu borgarstjórnar. Hún segist í samtali við Kjarnann hafa þurft að „leita ráðgjafar með nokkur smáatriði.“
Hildur sagði sig nýverið úr stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og færði sig yfir í stjórn Faxaflóahafna. Í samtali við mbl.is sagði hún að það hafi lengi staðið til að hún myndi færa sig úr stjórn OR í stjórn Faxaflóahafna á nýju kjörtímabili en að hún hafi látið verða af því nú til að koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra sem gætu tengst kjöri eiginmanns hennar, Jóns Skaftasonar, í stjórn Sýnar, sem er stór leikandi á fjölmiðlamarkaði.
Í upphafi vikunnar var greint frá því að Sýn og Ljósleiðarinn ehf., fjarskiptafyrirtæki í eigu Orkuveitunnar sem hefur verið í samkeppni við Sýn, hafi gert samning um kaup á stofnneti Sýnar. Kaupverðið er þrír milljarðar króna. Auk þess gerðu fyrirtækin þjónustusamning til tíu ára.
Jón var kjörinn í stjórn Sýnar 31. ágúst síðastliðinn á hluthafafundi sem var boðaður af kröfu félagsins Gavia Invest, sem keypti í sumar rúmlega 16 prósenta hlut í Sýn, að mestu af félagi í eigu Heiðars Guðjónssonar, sem lét af störfum sem forstjóri Sýnar í lok júlí, sem átti 12,72 prósenta hlut.
Gavia Invest er nýstofnað fjárfestingafélag sem Jón er í forsvari fyrir. Gavia Invest er í eigu þriggja félaga, Capital ehf., E&S 101 ehf. og AB 891 ehf. Eigendur þessara félaga eru, auk Jóns, Reynir Grétarsson, Hákon Stefánsson, Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson og Mark Kroloff.
Jón hefur á umliðnum árum verið náin samstarfsmaður hjónanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar Ingibjargar Pálmadóttur og var framkvæmdastjóri fjárfestingarfélagsins Strengs og fjárfestinga hjá 365 þangað til fyrr á þessu ári. Hildur og Jón hafa verið saman um árabil en gengu í hjónaband í lok síðasta árs.
Borgarfulltrúum ber ekki skylda til að skrá fjárhagslega hagsmuni
Hildur segir í samtali við Kjarnann að hún sé að vinna að því að uppfæra upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa í samstarfi við skrifstofu borgarstjóra. Skráningin hafi ekki verið uppfærð þar sem hún hafi þurft að leita ráðgjafar með nokkur smáatriði.
Hún bendir jafnframt á að samkvæmt reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar, sem borgarstjórn samþykkti í mars 2020, ber borgarfulltrúum og varaborgarfulltrúum ekki skylda til að skrásetja fjárhagslega hagsmuni heldur er það valkvætt.
Eiga að skrá hagsmuni innan mánaðar frá því að borgarstjórn kemur saman eftir kosningar
Tilgangur reglnanna er að veita almenningi upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa hjá Reykjavíkurborg og trúnaðarstörf þeirra utan borgarstjórnar. Reglurnar eiga þannig að auka gagnsæi í störfum borgarstjórnar.
Í reglunum segir að þeir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar sem kjósa að skrá hagsmuni sína í samræmi við reglurnar skuli gera það innan mánaðar frá því að borgarstjórn kemur saman eftir kosningar með því að gera opinberlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar. Fyrsti fundur borgarstjórnar eftir kosningarnar í vor var 7. júní, fyrir þremur mánuðum.
Uppfært klukkan 11:45: Hildur áréttar í samtali við Kjarnann að ekki hafi verið tilefni til að uppfæra hagsmunaskráningu hennar eftir kosningar fyrr en hún færði sig úr stjórn Orkuveitunnar í stjórn Faxaflóahafna. Það hefur nú verið gert.