Framboð Hillary Clinton til að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum er að verða eitt verst geymda leyndarmálið í Washington. Það virðist morgunljóst að hún ætlar sér að fara fram, en nú segir fólk í hennar innsta hring að hún sé að íhuga að tilkynna ekki formlega um framboð sitt fyrr en í júlí. Þeir telja að það sé engin ástæða fyrir hana að flýta sér, enda sé ekki útlit fyrir að margir reyni að veita henni samkeppni.
Næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram 8. nóvember á næsta ári. Í síðustu viku var tilkynnt að demókratar muni halda landsþing sitt í Fíladelfíu síðustu vikuna í júlí 2016, viku síðar en repúblikanar, sem halda sinn landsfund í Cleveland.
Upphaflega höfðu fjölmiðlar vestanhafs haldið því fram að tilkynnt yrði formlega um framboð hennar í apríl en nú er því haldið fram að þá verði mögulega tilkynnt um að hún sé formlega að kanna málið og framboðstilkynningu verði frestað um þrjá mánuði. Kostur þess að tilkynna um framboð í upphafi nýs ársfjórðungs er að þá er hægt að fara á fullt í fjáröflun og ná að safna þannig upphæð að hún vekji athygli þegar fyrsta ársfjórðungsuppgjörinu er skilað. Þetta plan gæti þó breyst aftur, þar sem sumir stuðningsmenn hennar hafa bent á að það megi ekki líta þannig út að hún telji útnefningu flokksins einshvers konar formsatriði eða krýningu. Það var eitt af því sem skemmdi fyrir henni síðast, því á þessum tíma árið 2007 var hún aðalframbjóðandinn. Allir vita hvernig það endaði.
Farin að safna liði
Clinton hefur ráðið til sín fjöldann allan af starfsfólki, sem sýnir enn frekar fram á framboðið. Robby Mook verður kosningastjóri hennar. Hann starfaði fyrir framboð hennar til forseta árið 2008 og stjórnaði kosningabaráttunni í Nevada, Indiana og Ohio með góðum árangri. Hann hefur séð um ráðningar á öðru starfsfólki og Politico orðar það sem svo að hann hafi verið mikið í símanum undanfarna mánuði að tala við alla þá helstu sem hafa komið að framboði og forsetatíð Obama til að fá ráð um það hverja eigi að ráða.
Nú þegar er búið að ráða nokkrar kanónur. Jennifer Palmieri, yfirmaður samskiptamála í Hvíta húsinu, hefur til að mynda sagt upp störfum þar til þess að gegna sama starfi fyrir Clinton. Einn nánasti ráðgjafi Baracks Obama Bandaríkjaforseta, John Podesta, hefur einnig tilkynnt að hann hyggist yfirgefa Hvíta húsið og hjálpa Hillary Clinton með framboð sitt, „ef hún ákveður að fara fram“. Joel Benenson var einn helsti skoðanakönnuður Obama fyrir forsetakosningarnar 2008 og 2012 og hann hefur nú gengið til liðs við Clinton. Jim Margolis var ráðgjafi hjá Obama og er nú kominn til starfa hjá Clinton.
Hjónin Bill og Hillary Clinton. Bill er sagður hafa verið svolítið útundan í síðustu kosningabaráttu en nú stendur til að bæta úr því.
Fjöldi annarra demókrata hefur ýmist þegar verið ráðinn eða á góðri leið með það, og þónokkrir eiga það sameiginlegt að hafa starfað fyrir núverandi forseta. Fæstar ráðninganna eru orðnar formlegar, heldur er búið að „taka fólk frá“.
Clinton hefur átt í stirðu sambandi við fjölmiðla í gegnum tíðina, ekki síst í framboðinu árið 2008, og þetta á að laga núna eins og annað sem fór úrskeiðis þá. Það er ekki síst þess vegna sem Obama-fólk er fengið til starfa, það á að hjálpa til við að forðast mistökin sem gerð voru þegar Clinton tapaði fyrir Obama.
Nær hún að fjarlægja sig Obama?
Það að ráða starfsfólk núverandi forseta hefur þó líka sína galla. Nú þegar er víða talað um að framboð Clinton verði eins og framboð forseta til annars kjörtímabils, svo lítil sé samkeppnin og svo mikil líkindin með Obama og Clinton. Þetta er ekki gott fyrir Clinton gagnvart þeim fjölda fólks sem er óánægður með störf Obama.
Hún þarf því líka að reyna að fjarlægja sig honum. Hún þarf líka að reyna að miðla því einhvern veginn að hún sé reynd í utanríkismálum, enda fyrrverandi utanríkisráðherra, en á sama tíma reyna að gera ekki of mikið úr því að hún var auðvitað ráðherra undir stjórn Obama. Sömuleiðis þarf hún að reyna að höfða til demókrata sem hallast meira til vinstri en hún en það má samt ekki vera of mikið - þá gæti hún virst óeinlæg. Skoðanakannanir benda líka til þess að hún nái ágætlega til þessa fólks.
Annað vandamál sem hún gæti glímt við er skortur á andstöðu. Það er erfitt að búa til stemmningu og þunga þegar það er enginn keppinautur til staðar. Það er jafnvel rætt um að hún muni ekki einu sinni þurfa að mæta í kappræður.
Andstaðan er varla til staðar
Economist lýsir andrúmsloftinu þannig að þrátt fyrir alla kostina sem Clinton býr yfir og þá jákvæðni sem væntanlegt framboð hennar mætir, þá sé nærvera hennar kæfandi þegar kemur að mögulegum keppinautum innan flokksins. Margir hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir frambjóðendur, en það er ekkert sérstaklega spennandi tilhugsun fyrir þá að fara fram gegn kosningavélinni sem Clinton-fjölskyldan er.
Joe Biden varaforseti hefur verið nefndur til sögunnar, en framboð hans virðist sífellt ólíklegra, enda mælist hann ekki vel í könnunum. Martin O'Malley, fyrrverandi ríkisstjóri í Maryland, og Jim Webb, fyrrverandi öldungardeildarþingmaður í Virginíu, hafa báðir verið nefndir. Nokkra fleiri væri hægt að nefna en þeir eiga það flestir sameiginlegt að hafa úr takmörkuðu fé að spila, ekki síst í samanburði við Clinton.
Barack Obama Bandaríkjaforseti og Elizabeth Warren.
Sú sem talið hefur verið að gæti ógnað Clinton hvað mest er Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts. Hún hefur sagt ítrekað að hún ætli ekki að bjóða sig fram, en það hefur samt ekki þaggað niður í fólkinu sem vill fá hana fram. „Ready for Warren“ og „Run Warren Run“ eru tveir hópar sem hafa hvað helst haft sig í frammi. Stuðningsfólk hennar hefur efasemdir um Clinton og telur hana of hægrisinnaða, of tengda stjórnmálaelítu landsins og of nána Wall Street og auðvaldinu. Warren hefur tjáð sig mikið um misskiptingu auðs og fjármálakerfið.
Enn á eftir að koma í ljós hvort Warren snúist hugur, en svo virðist sem henni og stuðningsfólki hennar sé að minnsta kosti að takast að vekja athygli á hugmyndum hennar. Það gæti því farið svo að Clinton taki ýmsar hugmyndir hennar upp á sína arma, ekki síst þegar kemur að efnahagsmálum. Svo væri það auðvitað sögulegt ef tvær konur kepptust um að hljóta útnefningu Demókrataflokksins.
Hvað með unga fólkið?
Bent hefur verið á það að meðalaldur þeirra sem eru taldir mögulegir frambjóðendur flokksins er 69 ár. Hjá repúblikönum er meðalaldurinn 57 ár. Þetta hafa sumir fjölmiðlar bent á að gæti skapað vandamál, ekki síst þegar inn í jöfnuna bætist að það eru mun færri tækifæri til að koma ungu fólki inn í baráttuna með beinum hætti en til dæmis hjá Obama. Það er sagt helgast ekki síst af því að með því að tvinna saman helsta Clinton-fólkið og helsta Obama-fólkið er ekki svo mikið af störfum eftir, auk þess sem færri frambjóðendur þýða færri störf í kosningabaráttunni. Það skiptir demókrata máli að ná ungu fólki á kjörstað, ekki síður en minnihlutahópum og efnaminna fólki.
Þrátt fyrir að Hillary Clinton sé 67 ára gömul telur helmingur Bandaríkjamanna hana vera fulltrúa framtíðarinnar, samkvæmt nýrri könnun sem CNN og ORC gerðu í vikunni. Þar var spurt um það hverjir hinna mögulegu forsetaframbjóðenda standi fyrir framtíðinni og hverjir fortíðinni. 50% sögðu Clinton tákna framtíðina en 48% fortíðina. Einnig var spurt um Warren, sem 46% sögðu tákna framtíðina en 37% fortíðina, og um Biden. 33% sögðu hann standa fyrir framtíðinni en 64% fortíðinni.
Enginn væntanlegra frambjóðenda Repúblikanaflokksins þótti jafn mikið tákn framtíðar og Clinton og Warren. En meira um það síðar.