Tvö andlát af völdum sýkingar af Marburg-veirunni hafa verið staðfest í Gana. Um 100 manns eru í einangrun eftir smitrakningu. Sjúklingarnir tveir sem létust, 26 ára og 51 árs karlmenn, voru ótengdir sem vakið hefur ugg í brjóstum heilbrigðisstarfsmanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Það er skiljanlegt því veiran hefur valdið mjög mannskæðum faröldrum í nokkrum Afríkuríkjum. Og svo banvæn er hún að dánartíðnin er jafnvel um 88 prósent.
Marburg-veiran tilheyrir ætt svonefndra þráðveira (Filoviridae) og er skyld ebólu-veirunni. Með því að greina mun á genum ebólu- og Marburg-veirunum hafa vísindamenn sýnt fram á að þráðveirurnar tvær hafi þróast frá sameiginlegum forföður fyrir um 700-850 árum síðar.
Þráðveirur eru tiltölulega ungur hópur veira sem leggjast á menn. Veirurnar eiga það sameiginlegt að lama ónæmiskerfi hýsilsins. Þær valda mjög alvarlegum sjúkdómseinkennum og dánartíðni sýktra er allt að 90 prósent eins og fyrr segir. Sjúkdómseinkenni koma skyndilega og þau helstu eru hár hiti, mikill höfuðverkur, slen og beinverkir, að því er fram kemur í upplýsingum WHO. Eftir að þessi einkenni koma fram er algengt að sjúklingar fái útbrot á brjóstkassa, baki og kvið. Sjúklingar geta svo fengið miklar blæðingar úr vitum og kynfærum.
Faraldrar í nokkrum ríkjum
Marburg-veirufaraldur hefur ekki orðið í Gana til þessa og enn er vonast til þess að tilvikin séu einangruð. Slíkir faraldrar hafa hins vegar átt sér stað í Angóla, Austur-Kongó, Kenía, Suður-Afríku og Úganda. Minni hópsýkingar hafa svo orðið í Evrópu og í Bandaríkjunum.
Borin voru kennsl á Marburg-veiruna í fyrsta skipti í Þýskalandi árið 1967 og sama ár í Júgóslavíu sem þá var og hét. Veiran greindist í litlum apa sem hafði verið fluttur inn frá Afríkulandi. Líkt og með margar aðrar veirur eru leðurblökur þeirra helstu hýslar í náttúrunni. Fyrstu tilfellin í mönnum voru enda greind í námuverkamönnum. Eftir að manneskja smitast getur hún borið smit í aðra, með snerti- eða úðasmiti. Veiran hefur einnig smitast manna á milli með líkamsvessum, ekki síst blóði.
Í þeim Marburg-faröldrum sem áður hafa geisað hefur dánartíðnin verið á bilinu 24-90 prósent eftir því hvaða afbrigði veirunnar er á kreiki.
Engin lækning er til við veirusýkingunni. Hins vegar er hægt að veita meðferð við ákveðnum einkennum sem eykur líkur á bata. Sjúkrahús í Afríku eru mörg hver engan veginn í stakk búin til að sinna gjörgæslusjúklingum og sjúklingum í einangrun. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur því sent teymi til Gana til aðstoðar. „Þetta er gott því ef ekki er gripið strax inn í getur orðið óviðráðanlegt að halda Marburg-veirunni í skefjum,“ segir Matshidiso Moeti, yfirmaður WHO í Afríku.
Aðstoðin felst m.a. í því að rannsaka, ásamt heilbrigðisyfirvöldum í Gana, hvaðan smitin bárust inn í landið. Þá útvegar WHO einnig nauðsynlegan hlífðarbúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem og sérfræðinga ýmsa.
Veiran er talin bráðsmitandi og til að koma í veg fyrir smit þarf því að grípa til mikilla aðgerða, bæði á sjúkrahúsum sem persónubundinna sóttvarna einstaklinga. Við meðhöndlun á dýraafurðum þarf gæta sérstakrar varúðar og í aðgerðum WHO felst m.a. fræðsla til almennings hvað það varðar.