Á sumum svæðum í Frakklandi og á Spáni hefur á síðustu dögum verið tíu gráðum heitara en meðalhiti á þessum árstíma. Það er ekkert smáræði, segja sérfræðingar, og að miklir þurrkar að auki á mörgum svæðum í Evrópu, hafi gert illt verra.
Hitabylgjan fordæmalausa miðað við árstíma er ekki aðeins bundin við Evrópu heldur hefur um þriðjungur Bandaríkjanna þurft að fylgjast vandlega með veðurviðvörunum vegna mikils hita síðustu daga. Þá hefur skæður hiti hangið yfir Indlandi og Pakistan og fleiri landsvæðum jarðar.
„Við höfum sagt það áður og við segjum það aftur: Vegna loftslagsbreytinga munu hitabylgjur byrja fyrr, þær eru að verða algengari og ákafari vegna þess að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur aldrei verið meira. Það sem við erum að sjá núna er hinn óheppilegi forsmekkur að framtíðinni.“
Þetta sagði Claire Nullis, talsmaður Alþjóða veðurfræðistofunnar, um helgina. Orð hennar eru ekki sérstaklega upplífgandi. Hlutirnir virðast vera að gerast hraðar en almenningur átti von á, þrátt fyrir varúðarorð sérfræðinga síðustu ár - um að einmitt svona muni áhrif loftslagshamfaranna birtast okkur.
Hitastigið í Evrópu mun lækka í dag og næstu daga en veðurfræðingar vara við því að samtímis sé von á mikil úrkomu sem gæti valdið óskunda.
Hún er sögð hafa verið sérlega skæð og fordæmalaus, hitabylgjan sem „bakaði“ vesturhluta Evrópu um helgina. Í Biarritz í Frakklandi, þar sem sóldýrkendur koma saman í júní til að njóta veðurblíðunnar, fót hitastigið upp í 42,9 gráður á laugardag. Svo hár var hitinn um stærsta hluta landsins að franska veðurstofan sendi út viðvörun og bað fólk að sýna aðgát. Langar biðraðir mynduðust við vatnsrennibrautagarða. Ljónin í dýragörðunum fengju ísköggla með frosnu blóði til að kæla sig. Þótt ljón séu vissulega von hitum í sínu náttúrulega umhverfi geta þau ekki leitað sama skjólsins fyrir þeim í dýragörðunum.
Ýmsum viðburðum, svo sem tónleikum, var frestað um helgina í Frakklandi, á Spáni og í Portúgal.
Yfir fjörtíu gráður mældust víða í landinu og þótt hvassviðri af Atlantshafinu sé yfirleitt ekki fagnað á þessum árstíma var mörgum létt að heyra að slíkt væri á leiðinni.
„Þessi hitabylgja er fyrr á ferðinni en þekkst hefur frá upphafi mælinga,“ sagði Matthieu Sorel, veðurfræðingur hjá frönsku veðurstofunni. Hann sagði ljóst að hitabylgjan markaði áhrif loftslagsbreytinga.
Hitinn var ekki aðeins óbærilegur að margra mati, sérstaklega þeirra sem búa ekki við þann lúxus að komast inn í loftkæld hús, heldur myndaðist mikið magn hinnar skaðlegu lofttegundar ósóns er svifryk dansaði í brennheitum sólargeislunum. Þetta varð til þess að dæmi eru um að fólk hafi fundið fyrir öndunarerfiðleikum, hóstað og fundið brjóstverk.
Vatnsskortur og kýr í vanda
Fréttamiðlar í Evrópu hafa einnig greint frá því að vatn hafi verið skammtað, m.a. á Norður-Ítalíu. Að afloknu þurru vori var snemmbúinni hitabylgju ekki bætandi á vatnsbúskapinn.
Ítalskar kýr eru líkt og mannfólkið ekki upp á sitt besta við þessar of heitu aðstæður. Kúabændur segja nytin kúnna hafa minnkað um 10 prósent í hitabylgjunni. Kýr þurfa að drekka tugi lítra af vatni á dag til að mjólka vel samkvæmt nútíma mælikvörðum. En vatnið er af skornum skammti.
Hið óvenjulega veður varð til þess að skógareldar kviknuðu á nokkrum stöðum á Spáni í lok síðustu viku og eyddu slökkviliðsmenn helginni í baráttu við þá. Á landamærunum við Portúgal voru þeir sérlega miklir og rýma þurfti fjórtán bæi er eldtungur nálguðust óðfluga. Um 20 þúsund hektarar lands urðu eldunum að bráð.
Í Frakklandi kviknaðu einnig gróðureldar, m.a. vegna eldfimra heræfinga á herstöð í suðurhluta landsins. Um 200 hektarar lands brunnu áður en það tókst að slökkva í síðustu glæðunum.
Franskir bændur fóru ekki varhluta af hitabylgjunni. Þeir sem vanir eru að vinna úti allan daginn í júní sögðust aðeins hafa getað aðhafst utandyra snemma á morgnanna og á kvöldin. Miður dagurinn var einfaldlega of heitur. Í gróðurhúsum þar sem tómatar og annað grænmeti er ræktað, hækkaði hitinn skarpt, fór í 55 gráður á laugardag. Í slíkum hita er alls ekki óhætt að vinna.
Þótt Bretlandseyjar hafi ekki „bakast“ í hitanum síðustu daga voru þar engu að síður met slegin. Föstudagurinn var sá heitasti frá upphafi mælinga, fór yfir 30 stig.
Sérfræðingar frönsku veðurstofunnar segja að vegna loftslagsbreytinga séu hitabylgjur eins og þessar fimm til tíu sinnum líklegri en fyrir einni öld síðan. Þá er hitinn í slíkum bylgjum að meðaltali 1,8-4 gráðum meiri en áður.
Og hátt hitastig er ekki eina hættan sem fylgir breytingum á loftslagi af mannavöldum. Flóð eru orðin tíðari og verða enn tíðari. Það sama má segja um öfgafulla þurrka.