Atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls hjúkrunarfræðinga lauk á miðnætti, en af þeim 76 prósentum félagsmanna sem tóku þátt í kosningunni, voru rúmlega 90 prósent fylgjandi því að fara í verkfall. Fréttavefurinn Vísir greinir frá niðurstöðunni.
Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst því að óbreyttu þann 27. maí næstkomandi og mun standa þar til samningar nást. Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif en það nær meðal annars til allra hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu, alls munu 2.146 hjúkrunarfræðingar fara í verkfall.
Vísir hefur eftir Ólafi G. Skúlasyni, formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að mikið beri á milli deiluaðila, en næsti boðaði samningafundur með samninganefnd ríkissins vegna kjaradeilunnar fer fram á morgun.