Hlutabréf í Asíu hríðféllu við opnun markaða í dag, í framhaldi af mikilli lækkun í síðustu viku, einkum á föstudag. Kínverska SCI (Shanghai Composite Index) vísitalan féll um sjö prósent strax við opnun, og samkvæmt umfjöllun Quartz, óttast fjárfestar gang mála í Kína. Í Umfjölluninni segir að neikvæðar hagtölur upp á síðkastið, hafi vakið upp spurningar um hversu slæm staða kínverska hagkerfisins sé í reynd. Svo virðist sem enginn viti það með vissu, segir í umfjölluninni.
Kínversk stjórnvöld hafa ítrekað gripið inn í hlutabréfamarkaðinn á undanförnum misserum, meðal annars með beinum skipunum til fyrirtækja sem eru skráð á markaði, að kaupa eigin bréf. Þá hefur sala á bréfum hjá stærstu hluthöfum enn fremur verið bönnuð tímabundið, í nokkur skipti, þegar fallið á bréfum hefur verið sem hraðast.
Svo virðist sem þessar aðgerðir séu ekki að hafa mikil áhrif, því um leið og viðskipti hafa verið gefin frjáls á ný, þá hefur verðið fallið hratt.
And the sell-off continues: Asia's stocks are suffering major losses today http://t.co/Hqnos95l3H By @CRrileyCNN pic.twitter.com/Gr5MaxFoiT
— CNNMoney (@CNNMoney) August 24, 2015
Eins og fram kom í fréttaskýringu um stöðu mála, á vef Kjarnans, á dögunum þá bendir margt til þess að verulega sé farið að halla undan fæti í Kína, eftir fordæmalaust hagvaxtarskeið í 20 ár. Eftirspurn í landinu hefur dregist saman, og fasteignaverð hefur fallið um 3,9 prósent á einu ári. Í ljósi stærðar hagkerfisins, og þýðingu þess fyrir heimsbúskapinn, þá vegur hvert prósentustig í helstu hagtölum mjög þungt. Niðursveifla í Kína getur haft afdrifaríkar afleiðingar víða um heim, ekki síst fyrir ríki sem stunda mikil viðskipti við Kína, einkum með vöruútflutningi.