Aukin skriðuhætta vegna hlýnunar sífrera í fjöllum og hopi jökla eru á meðal þeirra afleiðinga sem breytingar á einstökum þáttum loftslagskerfisins geta haft á Íslandi. Þá mun aukin rigning að vetrarlagi í stað snjókomu einnig geta aukið skriðuhættu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kom út í dag.
Aðrar afleiðingar sem hlýnun hefur hér á landi er hækkun sjávarborðs vegna rýrnunar íss en árlegt massatap jökla heimsins hefur aukist mikið á síðustu 30 árum. Þar að auki geta breytingar á hafstraumum Norður-Atlantshafs orðið afdrifaríkar hér á landi.
Skýrsla IPCC fjallar um þær breytingar sem hafa átt sér stað í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi, á landi og í lífríki. Skýrslan er afrakstur vinnuhóps sem fjallar um náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á breytingum á veðurfari og loftslagskerfinu en hún er fyrsti hluti sjöttu ritraðar IPCC um loftslagsbreytingar. Fimmta ritröð nefndarinnar kom út árin 2013 og 2014.
Frá því að síðasta ritröð kom út hefur skilningur á loftslagsbreytingum fyrri tíðar aukist og framtíðarspár taldar öruggari. Ítarlegri gögn liggja nú fyrir sem gefa til kynna að vegna loftslagsbreytinga verði ýmsir aftakaatburðir algengari og afdrifaríkari, til dæmis ákafari rigning og meiri öfgar í hitabylgjum og þurrkum. Í skýrslunni segir einnig að nú er greinilegra en áður að athafnir mannkyns séu meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi.
„Örfáir“ áratugir til stefnu
„Mat á meðalhita jarðar er nú betra en fyrr og hefur það ásamt mjög heitum árum síðan 2011 hækkað mat á hlýnun jarðar,“ segir um þær breytingar sem orðið hafa frá því að síðasta skýrsla kom út. Því er áætlað að meira en helmings líkur séu á að hlýnun nái 1,5 °C snemma á fjórða áratug aldarinnar sem er fyrr en gert hafði verið ráð fyrir í sérstakri skýrslu um 1,5 °C hlýnun sem kom út árið 2018. Eitt af helstu markmiðum Parísarsamkomulagsins var að halda hlýnun innan við tvær gráður frá meðalhita fyrir iðnbyltingu – og helst fyrir innan 1,5 gráður.
Í skýrslunni kemur fram að umfang hlýnunar sé í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun CO2. Þar segir að örfáir áratugir séu til stefnu til þess að minnka losunina ef hlýnunin á ekki að verða meiri en stefnt var að í Parísarsamkomulaginu. „Ef miða á við góðar líkur á að ekki sé farið þau má losun frá 2020 ekki vera meiri en 300 GtCO2 svo takmarka megi hlýnun við 1.5 °C en 900 GtCO2 fyrir 2°C hámarkið. Ef við sættum okkur við helmingslíkur má losun frá 2020 ekki fara yfir 850 GtCO2 fyrir 1.5°C hlýnun og 1350 GtCO2 fyrir 2°C hlýnun. Árleg losun mannkyns er nú tæplega 40 GtCO2 svo einungis örfáir áratugir eru til stefnu.“