Íslandsbanki hagnaðist um 5,2 milljarða á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 3,6 milljarða í fyrra. Arðsemi eigin fjár bankans var 10,2 prósent á fjórðungnum, en arðsemin var 7,7 prósent á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Arðsemin er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans, sem segir helstu ástæður góðrar afkomu vera sterka tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæða virðisbreytingu útlána, í tilkynningu um uppgjörið sem birt var eftir lokun markaða í dag.
Hreinar vaxtatekjur bankans voru 9,2 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem er vöxtur um 12,4 prósent frá fyrra ári. Hækkunin skýrist af stækkun lánasafnins og hærra vaxtaumhverfis, segir bankinn.
Hreinar þóknanatekjur bankans jukust um 7,1 prósent á milli ára og námu 3,1 milljarði, en auknar tekjur í greiðslumiðlun, eignastýringu, fjárfestingarbanka og verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun leiddu þessa hækkun.
Eigið fé bankans nam 197,2 milljörðum króna í lok marsmánaðar og var eiginfjárhlutfall bankans 22,5 prósent að hagnaði fyrsta ársfjórðungs meðtöldum.
Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 47,6 prósent úr 51,3 prósenti á sama tímabili. Þetta segir bankinn aðallega „vegna sterkrar tekjumyndunar og hagkvæmari reksturs“.
Eru að breyta reglum um þátttöku starfsmanna í útboðum
Í tilkynningu bankans er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að bankinn sé ánægður með með afkomuna á fyrsta ársfjórðungi og bendir hún sérstaklega á að kostnaður bankans hafi staðið í stað samanborið við sama fjórðung í fyrra, þrátt fyrir 6,1 prósent verðbólgu.
Hún nefnir einnig þá miklu umræðu sem verið hefur í samfélaginu um söluferlið í síðara útboðið á hlut ríkisins í bankanum og það fyrirkomulag sem notast var við.
„Meðal annars hefur komið fram gagnrýni á þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu. Því tökum við alvarlega og stendur vinna yfir við breytingar á reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna,“ er haft eftir Birnu, en áður hafði Íslandsbanki veitt Kjarnanum þau svör að verið væri að „rýna“ reglurnar.
Alls átta starfsmenn, eða aðilar tengdir starfsmönnum, tóku þátt í útboðinu sem fram fór í mars, en fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka voru á meðal umsjónaraðila þess.