Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði Hörpu Þórsdóttur til að gegna embætti þjóðminjavarðar síðastliðinn fimmtudag.
Í tilkynningu var tekið fram að Harpa, sem er dóttir Þórs Magnússonar sem var þjóðminjavörður frá 1968 til 2000, hafi starfað við íslensk og erlend söfn í rúm 20 ár og sem safnstjóri Listasafns Íslands stjórnað einu af þremur höfuðsöfnum íslenska ríkisins. „Með tilliti til farsællar stjórnunarreynslu, víðtækra starfa innan safnageirans og góðrar þekkingar á málefnum Þjóðminjasafnsins, hefur menningar- og viðskiptaráðherra ákveðið að nýta heimild í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til að flytja embættismann milli stofnana og skipa Hörpu þjóðminjavörð Þjóðminjasafns Íslands. Mun reynsla hennar nýtast til að taka við Þjóðminjasafni Íslands, höfuðsafni íslenska ríkisins á sviði menningarminja.“
Embættið var því ekki auglýst líkt og lög gera almennt ráð fyrir að sé gert.
„Íslensk menning á nú betur skilið en eitthvað svona embættisleikja rugl“
Á laugardag sendi Félag fornleifafræðinga bréf til ráðherra vegna skipan nýs þjóðminjavarðar. Í tölvupósti sem sendur á fjölmiðla vegna þessa sagði: „Enn og aftur er þessi ríkisstjórn að ráða fólk í stór og mikil embætti án auglýsingar. Nú var það staða þjóðminjavarðar. Stjórn Félags fornleifafræðinga sendi í dag bréf til ráðherra og lýsti yfir miklum vonbrigðum með ráðningarferlið; íslensk menning á nú betur skilið en eitthvað svona embættisleikja rugl.“
Grefur undan trausti á stjórnsýsluna
Á sunnudagskvöld barst svo yfirlýsing frá stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS). Þar gerir hún alvarlegar athugasemdir við skipun nýs þjóðminjavarðar og segir að ráðningar sem þessar, með tilfærslu á milli embætta, séu ógagnsæjar og ófaglegar. „Slík vinnubrögð grafa undan trausti á stjórnsýsluna og embættismannakerfið.“
Stjórnin segir Þjóðminjasafn Íslands vera höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu og bero sem slíkt höfuðábyrgð á að varðveita, rannsaka og miðla stórum hluta íslensks menningararfs. Með því að skipa í stöðu þjóðminjavarðar án auglýsingar er gert lítið úr mikilvægi safnsins, faglegri starfsemi þess og starfsfólki. Skipun sem þessi grefur undan faglegu umhverfi safna og lýsir metnaðarleysi stjórnsýslunnar í garð Þjóðminjasafnsins og málaflokksins í heild. Stjórn FÍSOS leggur áherslu á að athugasemdir þessar beinast að engu leyti að nýskipuðum þjóðminjaverði, heldur að ógagnsæju og óréttlátu ferli skipunarinnar.“
Meginreglan í lögum að auglýsa skuli laus embætti
Allt frá árinu 1954, þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett, hefur það verið meginregla í lögum á Íslandi að auglýsa skuli opinberlega laus embætti og störf hjá ríkinu.
Þegar lögin voru endurskoðuð og ný lög sett árið 1996 voru áfram ákvæði um auglýsingaskylduna. Í þessum reglum er það meginreglan að auglýsa skuli laus störf en þau tilvik þegar ekki er skylt að auglýsa störf eru afmörkuð sérstaklega. Þessar undanþágur frá auglýsingaskyldu eiga við um störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana og því um líkt, enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
Þá eru undanþágur frá reglunum sem fela í sér að störf sem hafa verið auglýst innan síðustu sex mánaða ef þess er getið í auglýsingunni að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu hennar. Að endingu er að finna undanþágur um störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu.
Engar fleiri undanþágur er að finna í lögunum.
Meirihluti ráðuneytisstjóra skipaðir án auglýsingar
Það hefur hins vegar færst verulega í vöxt hérlendis að ráðherrar skipi í embætti án þess að þau séu auglýst. Það leiddi meðal annars til þess að umboðsmaður Alþingis tók upp frumkvæðisathugun á málinu. Hann gafst upp á þeirri athugun í fyrravor.
Í bréfi þar sem þá settur umboðsmaður útskýrði ástæðu þessa kom fram að ekki væri forsvaranlegt að nýta takmarkaðan mannafla embættisins til að ljúka frumkvæðisathuguninni í ljósi þess að ráðamenn færu hvort eð er ekkert eftir skýrum reglum og vilja löggjafans í þessum málum.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í síðustu viku að sjö af tólf starfandi ráðuneytisstjórum hefðu verið skipaðir án þess að embættin hafi verið auglýst laus til umsóknar. Á yfirstandandi kjörtímabili hafa þrír af þeim fjórum ráðuneytisstjórum sem hafa verið skipaðir fengið þær stöður án þess að þær hafi verið auglýstar lausar til umsóknar.