Einstaklingum sem sæta smitgát í kjölfar smitrakningar verður ekki lengur skylt að fara í hraðpróf við upphaf og lok smitgátar frá og með morgundeginum, en þeir þurfa hins vegar að fara gætilega í 7 daga og í PCR próf ef einkenni koma fram.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu á vef stjórnarráðsins, en Willum Þór Þórsson hefur staðfest reglugerð þessa efnis.
Sama reglugerð veitir einstaklingum sem eru í einangrun jafnframt takmarkaða heimild til útiveru – þeir mega fara í gönguferð í nærumhverfi heimilis en verða að gæta að minnsta kosti tveggja metra fjarlægðar frá öðrum vegfarendum. Miðað er við tvær gönguferðir á dag, að hámarki 30 mínútur í senn.
Á vef stjórnarráðsins segir að breytingarnar á reglum um smitgát séu gerðar í samræmi við tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og vísað er til þess að í minnisblaði hans til ráðherra segi að einungis um 1 prósent af þeim tæplega 16.500 einstaklingum sem sættu smitgát á fyrstu 16 dögum ársins hefðu greinst smituð í kjölfar prófs.
„Full ástæða er til að endurskoða þetta fyrirkomulag sérstaklega í ljósi lágs hlutfalls smita og mikils fjölda sýna sem taka þarf,“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis um þetta efni.
„Líkt og verið hefur mun rakningateymi leggja mat á hverjir skuli sæta sóttkví og hverjir smitgát með hliðsjón af því hve mikið hver og einn hefur verið útsettur fyrir smiti. Hjá þeim sem útsetningin er metin óveruleg gilda óbreyttar reglur um smitgát, að öðru leyti en því að smitgát stendur nú yfir í 7 daga og ekki er skylt að taka hraðpróf í upphafi eða við lok hennar. Ef einstaklingur í smitgát finnur fyrir einkennum sem bent geta til Covid-19 skal hann fara í PCR-próf.
Þeir sem eru í smitgát mega sækja vinnu og skóla og sinna nauðsynlegum erindum. Þeir þurfa að hafa hugfast að smit er ekki útilokað, sýna aðgát, gæta vel að persónulegum sóttvörnum og fara þegar í stað í PCR sýnatöku ef einkenni um smit koma fram. Meðan á smitgát stendur skal takmarka samneyti við viðkvæma einstaklinga og aðra eins og hægt er,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Engar ráðleggingar um útiveru í minnisblaði Þórólfs
Í minnisblaði sóttvarnalæknis er ekkert fjallað um þær breytingar sem einnig eru kynntar til sögunnar í dag og varða aukna útiveru þeirra sem eru í einangrun eftir að hafa greinst með COVID-19.
Í tilkynningunni á vef ráðuneytisins segir að núgildandi reglur feli í sér að þeir sem eru í einangrun megi í dag fara út á svalir eða út í einkagarð við heimili sitt, ef heilsan leyfi.
„Með þeirri breytingu sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið verður viðkomandi heimilt að fara í gönguferð í nærumhverfi heimilis síns ef heilsa leyfir. Þeir þurfa að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum og mega ekki fara á fjölsótt svæði. Miðað er við tvær gönguferðir á dag, að hámarki 30 mínútur í senn. Ekki unnt að bjóða fullorðnum sem eru í einangrun í sóttvarnahúsum útiveru en slíkt verður í boði fyrir börn,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.