„Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjölmiðlum. Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu.“
Þetta segir Hreggviður Jónsson aðaleigandi og formaður stjórnar Veritas í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla í dag. Ástæðan er viðtal Eddu Falak við Vítalíu Lazareva sem birtist í gær en þar ásakaði hún þrjá áhrifamenn í samfélaginu um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi í bústað fyrir rúmu ári síðan.
Hreggviður segist í yfirlýsingunni líta þetta mál alvarlegum augum og þrátt fyrir að hann hafi „ekki gerst brotlegur við lög“ þá muni hann stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja „til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi“.
Ari farinn í leyfi
Stundin greindi frá því fyrr í dag að Ari Edwald hefði sjálfur óskað eftir því að fara í leyfi í gær en nafn hans var meðal þeirra sem Vítalía birti á Instagram-síðu sinni seint á síðasta ári þar sem hún tjáði sig um kynferðisofbeldið.
Fram kemur hjá Stundinni að Ari hafi stýrt Ísey útflutningi sem framkvæmdastjóri allt frá því að hann lét af störfum sem forstjóri Mjólkursamsölunnar. Ísey var dótturfélag þess en var á síðasta ári breytt í systurfélag. Það þýði að félögin tengjast ekki beint en séu í eigu sömu aðila. Ísey stýrir útflutningi og erlendri starfsemi sem áður tilheyrði Mjólkursamsölunni og snýr fyrst og fremst að markaðssetningu á skyri í útlöndum.