Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, segir hugsanlegt að flokkurinn þurfi að hugsa sinn gang, miðað við þær fylgistölur sem hafa verið að koma fram í skoðanakönnunum að undanförnu, en Samfylkingin hefur verið að mælast með á bilinu 10-13 prósenta fylgi að undanförnu.
„Ég held að við höfum hvikað frá grundvallarstefnu jafnaðarmanna og verið alltof reikul og ekki nógu fókuseruð og einbeitt í grundvallarþáttunum,“ segir Guðjón, í samtali við Kjarnann um liðið kjörtímabil og kosningabaráttuna framundan, en hann sjálfur er ekki í framboði fyrir flokkinn að nýju og því einn þeirra þingmanna sem hverfa úr framlínu stjórnmálanna eftir komandi kosningar.
Blaðamaður spurði Guðjón út í gengi Samfylkingarinnar og þá hvort þróun undanfarinna ára sýndi ef til vill að sú tilraun sem gerð var til að búa til breiðfylkingu til vinstri í íslenskum stjórnmálum sem gæti jafnað Sjálfstæðisflokkinn að stærð hafi mistekist.
„Það sem eftir stendur er það að hugsjónir jafnaðarmanna eiga aldeilis upp á pallborðið í dag. Það er gott til þess að vita og þægilegt fyrir jafnaðarmann að hugsa til þess að þær eru gulls ígildi. Hvort Samfylkingin þarf að hugsa sinn gang, það er hugsanlegt. Ef við horfum til þess fylgis sem kannanir sýna þá er rík ástæða til þess að endurskoða það. Hvað sem veldur eru margir sem höggva í sama knérunn og Samfylkingin og jafnaðarmenn og það er bara staðfesting á því hversu góðar og gildar hugsjónir og stefnumál jafnaðarmanna eru,“ segir Guðjón.
Þurfi að gera betur fyrir þá sem standi höllum fæti
Þeir grundvallarþættir sem Guðjón telur að Samfylkingin hafi mátt gera betur í á liðnum árum eru málefni þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi, „það eru aldraðir, það eru öryrkjar, það er barnafólk, það eru þeir sem eiga ekki húsnæði,“ segir Guðjón og bætir við að það séu stórir þættir í heilbrigðisþjónustunni sem „við hefðum átt að taka miklu fastari tökum.“
Spurður hvort hann hafi trú á því að flokkurinn muni byrja að gera það, taka þessi mál fastari tökum, segist hann vona að svo verði. „Ég vona það, ég er ekki sannfærður, en ég vona það.“
Guðjón hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá árinu 2016. Á kjörtímabilinu segist hann persónulega hafa lagt mesta áherslu á félags- og heilbrigðismál í sínum störfum. „Það sem mér er eftirminnilegast er að fá samþykkta stefnumótun í málefnum Alzheimer-sjúklinga, að fá heildstæða stefnumótun í málefnum þeirra sem glíma við heilabilun á Íslandi. Það var ekki til og sú stefna hefur nú verið lögð,“ segir Guðjón sem einnig telur að mikilvægt hafi verið að fá samþykkta stefnu um þátttöku fólks af erlendum uppruna í íslensku samfélagi.
„Svo er mál sem ég tel að okkar flokkur hefði átt að leggja enn meiri áherslu á, ný velferðarstefna fyrir aldraða, sem náðist nú ekki að taka fyrir og afgreiða í þinginu, en það liggur fyrir að við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á nýjar leiðir í málefnum aldraðra,“ segir Guðjón.
Af öðrum málum kjörtímabilsins sem Guðjón telur hafa verið mikilvæg nefnir hann lögin um þungunarrof. Það telur Guðjón vera „miklu meira jafnréttismál en við höfum rætt um“ og „gríðarlega mikilvægt mál í okkar stóru umræðu um jafnrétti, að konur fái að ákveða sitt líf og sína framtíð. Þetta er eitt af mörgum stórum skrefum í þá átt að öll kynin búin við jafnræði.“
Guðjón sat einmitt í sérstakri jafnréttisnefnd sem sett var á laggirnar eftir að MeToo-byltingin spratt fram og segir að þar hafi verið lagður grundvöllur að því að breyta menningu og viðhorfum á þinginu og stuðla að því að Alþingi verði fjölskylduvænni vinnustaður.
Málþóf úr böndum
Hann var einnig fyrsti varaforseti Alþingis á kjörtímabilinu og ber samstarfi við Steingrím J. Sigfússon vel söguna, en segir það hafa komið í ljós á kjörtímabilinu að ná verði betri stjórn á umræðum í þinginu.
„Þá dettur manni í hug auðvitað málþófið og atriði sem snúa að því, sem fær sínar skrumskældu birtingarmyndir eins og við þekkjum, þær birtingarmyndir sem eiga ekkert skylt við lýðræðið,“ segir Guðjón en bætir síðan við að það „auðvitað dýrmætur réttur minnihlutans að geta rætt og tafið mál sem sína einu leið til þess að hasla sér völl í umræðunni.“
„Jájá, það fór úr allri hömlu þegar Miðflokkurinn hélt þinginu í gíslingu í marga sólarhringa. Þá varð manni ljóst að það á ekkert skylt við lýðræði, að binda þingið sólarhringum saman, bæði þingmenn og starfsfólk þingsins þar sem enginn tók þátt í umræðunni nema miðflokksmenn sjálfir. Þarna fékk lýðræðið á sig afkáralega mynd,“ segir Guðjón.
Hann segir ekki gott að átta sig á því hvað kosningabaráttan framundan komi til með að teiknast upp, eða hvaða mál verða til umræðu.
„Þetta breytist dálítið hratt og kannski hafa þessar vendingar í COVID einhver áhrif en ég held að úrslitin verði hugsanlega óvænt. Ég vona að við fáum breytingar í samsetningu meirihluta þannig að hægt verði að koma á laggirnar félagshyggjustjórn því við hjá Samfylkingunni höfum alls ekki náð fram nægilega mörgum málum og áherslurnar hafa því miður orðið þær sem við óttuðumst með þessum meirihluta,“ segir Guðjón og bætir við að umbætur í félagslegri þjónustu gagnvart öldruðum og öryrkjum standi eftir, nú í lok kjörtímabils.
„Stóra málið í síðustu kosningum, heilbrigðismálin, þar stöndum við í sömu sporum því miður og staða Landspítala hefur aldrei líklega verið erfiðari en núna og svona mætti lengi nefna,“ segir Guðjón.
Mikilvægt að rækta tengsl við Færeyjar og Grænland
Guðjón hefur setið Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins frá því árið 2017 og verið formaður ráðsins á kjörtímabilinu. Hann segir að heimsfaraldurinn hafi truflað það starf, það hafi allt verið í hálfgerðum dvala, þó fjarfundir hafi vissulega verið haldnir.
„Það er mikilvægt að við höldum saman í Vestnorræna ráðinu á þessum tímum þegar loftslagsmálin og umhverfismálin eru stór verkefni. Þar þurfa Íslendingar að vera áfram, eins og við höfum gjarnan verið, í forystu,“ segir Guðjón. Hann telur mikilvægt að Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar efli tengsl sín á milli enda séu stór verkefni framundan varðandi sjóinn, loftið og hinar sameiginlegu fiskveiðiauðlindir ríkjanna.
„Síðan eru það öryggismálin á norðurslóðum og greinilega aukinn áhugi stórveldanna á norðurslóðum, þarna þurfum við að koma fram sem sterk rödd, vestnorrænu ríkin,“ segir Guðjón.
Þingmaðurinn segist ekki vita hvað taki við hjá honum, nú er hann lætur af þingmennsku. En segist vera fullur af krafti og orku.
„Ég ætla að reyna að nýta þá orku í eitthvað annað ef svo ber undir, en ég veit ekki hvort það verður mikil eftirspurn eftir þeirri orku. Þá verður hún bara notuð til heimabrúks.“