Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar segir að fundurinn með Bankasýslunni í morgun hafi verið upplýsandi á margan hátt. En þrátt fyrir það liggi ekki ennþá fyrir hvort, í gegnum allt þetta ferli, heilbrigðir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir, hvort reglur hafi verið brotnar einhvers staðar á leiðinni eða hvað.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún benti á í upphafi ræðu sinnar að Bankasýslan hefði sannarlega verið stofnuð á sínum tíma til að vera í armslengd frá framkvæmdarvaldinu og þegar henni er treyst fyrir sölu á eign eins og Íslandsbanka væri auðvitað mjög mikilvægt að fólk upplifði að því væri hægt að treysta.
„Það er alveg augljóst að það hefur ekki gengið. Upplýsingagjöfin hefði þurft að vera mun ítarlegri og betri til okkar allra. Fjármálaeftirlit Seðlabankans er að skoða háttsemi þeirra fimm innlendu söluaðila sem Bankasýslan valdi til að vinna að útboðinu á Íslandsbanka. Þar er m.a. undir hvort um hagsmunaárekstra sé að ræða, hvort starfsmenn sumra söluráðgjafa hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu eða einhverjir nákomnir. Þetta eru stórar spurningar sem við þurfum að fá svör við.
En við verðum líka að horfast í augu við það að við þurfum væntanlega að endurskoða lögin og það liggur þegar fyrir að endurskoða aðkomu Alþingis að eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Í morgun fannst mér það áhyggjuefni að Bankasýslan gæti ekki aflað upplýsinga um fjárfesta sem gerðu tilboð í bréfin og höfðu jafnvel skuldsett sig fyrir kaupunum. Það eitt og sér vekur líka upp spurningar um það hvort breyta þurfi lögunum. Við þurfum alla vega að hafa þetta í huga að mínu mati,“ sagði hún.
Fjármálaráðherra mætir fyrir nefndina á föstudaginn
Bjarkey sagðist einnig vera hugsi eftir þennan fund, ekki síst varðandi valið á tilboðsgjöfum af því að í reglugerð ESB væri kveðið á um tvo fjárfesta, það er A- og B-fagfjárfesta og í ljósi alls sem upp hefði komið mætti velta því fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að hafa þar einungis þá sem falla undir A-fjárfesta. Það hefði takmarkað minni spámenn.
„Það hefði hugsanlega getað haft áhrif á verð, um það ætla ég ekki að spá, en ég held að það hefði verið heppilegra. Við í fjárlaganefnd höldum áfram að leita upplýsinga í málinu og um aðkomu allra í því samhengi. Á föstudaginn mun fjármálaráðherra mæta fyrir nefndina og sitja fyrir svörum og svo þegar niðurstaða Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits liggur fyrir er ekki ólíklegt að nefndin taki málið fyrir aftur,“ sagði hún að lokum.