Ef fasteignaverð á Íslandi væri alls staðar hið sama myndu flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins og stærri þéttbýlisstaða á Íslandi þó áfram vilja búa í sama hverfi eða byggðarlagi og þeir eru búsettir í dag.
Þetta er á meðal þess sem lesa má í um í nýútgefinni skýrslu Byggðastofnunar um búsetuáform landsmanna, sem byggir á niðurstöðum könnunar sem Maskína sá um að framkvæma á meðal íbúa stærri þéttbýliskjarna á Íslandi undir lok síðasta árs.
Þannig vildu samtals 85 prósent þeirra sem búa vestan Elliðaár í Reykjavík ýmist búa í miðborginni eða öðrum hverfum nálægt miðbænum, 65 prósent þeirra sem í dag búa austan Elliðaár í Reykjavík segjast vilja búa í úthverfi Reykjavíkur og 72 prósent þeirra sem búa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, Kraganum, segja að þar vilji þeir helst vera, þrátt fyrir að fasteignaverðið væri hið sama í öllum þessum mismunandi hverfum höfuðborgarsvæðisins.
Heimakærir Akureyringar
Fyrir utan höfuðborgarsvæðið voru þeir svarendur könnunarinnar á Akureyri allra líklegastir til að vilja helst áfram búa í sínum bæ, en 83 prósent þeirra sögðust vilja búa áfram á Akureyri þrátt fyrir að fasteignaverðið yrði allstaðar á landinu hið sama. Það sögðu einnig 78 prósent svarenda á Akranesi og 75 prósent íbúa á bæði Selfossi og Húsavík.
Þetta hlutfall var 65 prósent eða hærra í öllum þeim byggðarlögum sem voru með í könnuninni, nema Vogum í Vatnsleysuströnd.
Ef fasteignaverð væri hið sama alls staðar sögðust einungis 56 prósent svarenda þar kjósa sér að búa áfram í Vogum. Ríkur vilji mældist þar til flutninga á höfuðborgarsvæðið, og þá sérstaklega til nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, en í þeim væri kjörbúseta 25 prósent svarenda í Vogum.
Heilt yfir var yfirgnæfandi meirihluti svarenda í könnunni, sem yfir 9.000 manns svöruðu undir lok síðasta árs, ánægður með búsetu sína. Einungis tæplega 5 prósent sögðust óánægð með búsetu sína. Samkvæmt niðurstöðunum voru íbúar á og við höfuðborgarsvæðið ólíklegri til að flytjast búferlum en þeir sem búa á þéttbýlisstöðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Atvinnutækifæri og sýn á framtíðina afgerandi þáttur
Á meðal annarra niðurstaðna í rannsókn Byggðastofnunar, sem unnin var í samstarfi við Háskólann á Akureyri, er að atvinnutækifæri vega þungt þegar kemur að viðhorfi einstaklinga til búferlaflutninga. Aukin atvinnutækifæri draga þannig úr hættu á brottflutningi íbúa og þar af leiðandi fólksfækkun. Þá skiptir aðgengi að menntun, menningu, afþreyingu, þjónustu og nálægð við fjölskyldu og vini einnig máli.
Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að mat svarenda á líklegri þróun lífskjara í byggðakjarnanum á næstu árum hafi sterkari tengsl við búsetuáform en mat þeirra á þróun síðustu ára. Framtíðarsýn svarenda er samofin búferlahugleiðingum og þeir sem eru sáttir við búsetu sína í dag og telja lífskjör sín verða betri í náinni framtíð ætla ekki að flytja á næstu árum.