Ávöxtun norska olíusjóðsins nam 9,4 prósentum á fyrstu sex mánuðum ársins og var hún aðallega drifin áfram af hækkun hlutabréfaverðs, samkvæmt nýlega birtum hálfsársreikningi sjóðsins. Heildarvirði hans nemur 166 billjónum íslenskra króna, sem jafngildir 30 milljónum króna á hvern íbúa Noregs.
Hlutabréfaeign sjóðsins skilaði honum töluverðri ávöxtun á tímabilinu, eða um 13,7 prósent. Þessi hækkun var aðallega vegna verðhækkana á hlutabréfum í bandarískum fyrirtækjum, sem námu 17 prósent, auk þess sem evrópsk fyrirtæki hækkuðu um 13,5 prósent í virði.
1,8 milljón á mann í tæknirisunum
Nær helmingur hlutabréfaeigna sjóðsins er í bandarískum fyrirtækjum. Hlutdeildin er stærst í Apple, Microsoft, Alphabet (áður Google), Amazon og Facebook, en þessi fyrirtæki eru gjarnan kölluð Tæknirisarnir (e. Big Tech).
Samanlagt virði hlutdeildarinnar í þessum fyrirtækjum nemur 9,79 billjónum króna, en það jafngildir 1,8 milljónum íslenskra króna á hvern Norðmann. Meira en helmingur þessarar upphæðar er bundinn í Apple eða Microsoft.
Tæpt prósent af öllum hlutabréfum heimsins
Samkvæmt vefsíðunni Statista nam heildarvirði allra hlutabréfa á 20 stærstu kauphöllum heimsins 110 billjónum Bandaríkjadala síðastliðinn júní. Ef gert er ráð fyrir að langflest hlutabréf séu skráð á þessum mörkuðum má áætla að hlutabréfaeign norska olíusjóðsins nemi tæpu prósenti af öllum hlutabréfum í heimi.
Til samanburðar nemur samanlagt markaðsvirði allra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar 2.242 milljörðum króna, en það jafngildir um 0,02 billjónum Bandaríkjadala. Norski olíusjóðurinn er því rúmlega 50 sinnum verðmætari heldur en öll fyrirtæki í Kauphöllinni á Íslandi.