Á Enyobeni í borginni East London í Suður-Afríku iðar oftast allt af lífi á kvöldin og fram á nótt. Það ætti ekki að koma á óvart, þetta er bar, þar sem fólk kemur saman til að fá sér drykk. Spjalla saman. Hlæja saman. Dansa. En það sem er óvenjulegt, og reyndar kolólöglegt, er að Enyobeni er vinsæll samkomustaður unglinga. Því þar hafa þeir geta keypt sér áfengi án þess að hafa aldur til.
Meðvitundarlaus ungmenni í hrönnum, sagði í tilkynningu til lögreglunnar um kl. 4 aðfaranótt sunnudags. 22 þeirra létust. Flest voru úrskurðuð látin á staðnum en tvö létust á sjúkrahúsi. Meirihluti látinna eru stúlkur.
Suður-afrískir fréttamiðlar segjast hafa heimildir fyrir því að lögreglan telji að ungmennin hafi látist úr kolsýringseitrun. Að kolsýringurinn eigi upptök sín í bensín rafstöð sem var í húsnæðinu. Rafstöðin hafi dælt eitruðu lofti yfir viðstadda. Þetta á enn eftir að staðfesta og eiga niðurstöður krufninga að liggja fyrir á næstu dögum.
Hin látnu voru á aldrinum 13-17 ára.
Á laugardagskvöldið voru tugir ungmenna samankomin til að skemmta sér á Enyobeni-barnum. Gleðskapurinn stóð langt fram á nótt. Nokkrir sem voru á staðnum og hafa rætt við fjölmiðla segja að á einhverju tímabili hafi rafmagnið farið af byggingunni.
Það er ekki óalgengt. Rafmagn er víða ótryggt í Suður-Afríku. Þess vegna eru margir með varaafl, rafstöðvar, til að bregðast við. Þannig kann að standa á því að bensínknúna rafstöðin á Enyobeni-barnum fór í gang.
Réttarmeinafræðingurinn Solomon Zondi, sem tók við líkum ungmennanna til rannsóknar og rannsakaði einnig vettvanginn, segir við fréttamiðilinn Mail and Guardian að gaseitrun sé möguleg dánarorsök. Ákveðin lykt af hinum látnu beri það með sér auk þess sem áverkar á þeim bendi einnig til þess.
Yfirvöld segjast hafa sett helstu sérfræðinga landsins í að rannsaka málið. Sent þá frá höfuðborginni Pretoríu til að velta við öllum steinum. Suður-afríska þjóðin er í áfalli eftir uppákomuna og vill skýr svör og það sem fyrst. Rannsóknargögn hafa svo verið send á bestu rannsóknarstofur landsins, að sögn ráðamanna.
En hvað voru öll þessi börn að gera á skemmtistað langt fram á nótt?
Suður-afrískir fjölmiðlar segja þau mörg hver hafa verið lokkuð þangað með loforði um ókeypis áfengi, ókeypis þráðlaust net og myndatökum. Íbúar Senery Park-hverfisins, þar sem Enyobeni-krána er að finna, eru fátækir, meðal þeirra fátækustu á þessum slóðum. Í hverfinu er að finna ódýrt, félagslegt húsnæði og kofa. Kofa þar sem oft er hvorki rafmagn né rennandi vatn. Og þessar aðstæður geta gera boð um að komast í ókeypis netsamband ómótstæðilegt fyrir unglinga.
„Börnin í þessu hverfi hafa ekkert við að vera því það er ekkert í boði fyrir þau,“ sagði Nomthunzi Mbiko, talsmaður íbúasamtaka, á íbúafundi eftir harmleikinn. Börn hefðu engan stað til að hittast á. Þess vegna fari þau að neyta áfengis og hanga á krám fram á nótt. „Borgin verður að gera almenningsgarða og fjárfesta í íþróttamannvirkjum,“ sagði Mbiko, „svo að börnin okkar geti stundað íþróttir í stað þess að vera á krám.“
Borgaryfirvöld hafa lofað fjölskyldum fórnarlambanna ókeypis grafreit fyrir látin börn sín. Mbiko segir aðstoðina allt of litla. „Þetta er óásættanlegt. Við munum fara hús úr húsi og meta þarfir fjölskyldanna og afhenda yfirvöldum svo að þau geti brugðist við með viðeigandi hætti. Það verður að veita fjölskyldunum fjárhagsaðstoð.“
Mbiko er ekki hrædd við að tala opinskátt. Hún gagnrýnir yfirvöld í borginni sem og landinu öllu fyrir að setja upp leikrit í kringum rannsóknina sem verði þegar upp er staðið „gagnslaus“. Yfirvöld séu spillt og niðurstaða rannsóknarinnar verði það líka.
Segja líkum hafa verið hent út
„Við stukkum niður af svölunum því dyrnar voru læstar,“ hafa þrjú ungmenni sem lifðu þessa nótt á barnum af, sagt við fjölmiðla. Að ekki hafi verið um slys að ræða heldur „vel skipulagt morð“. Þegar gestir fóru að hósta og eiga erfitt með að ná andanum hafi ekki verið hægt að komast út. Að dyraverðir hafi kastað líkum út og svo læst svo að þeir sem inni voru komust hvergi.
Réttarmeinafræðingurinn Zondi hefur aðrar skýringar á því hvers vegna lífvana fólki var hent út. Dyraverðir hafi verið að reyna að koma þeim út undir ferskt loft.
„Börnin dóu vegna eitrunar,“ sagði Zondi í viðtölum í gær. Hvernig þau komust í tæri við eitrið sé hins vegar enn ekki ljóst. Sögur hafa verið á kreiki um að eiturefni hafi verið sett í vatnspípur sem gestir krárinnar voru að reykja. Eða í drykki sem þeim var boðið upp á. Ókeypis.
Ekkert slíkt hefur verið staðfest.
Hann vill róa landa sína. Þar með talið Mbiko. „Ég get fullvissað alla Suður-Afríkumenn um að allir eru að taka málið alvarlega. Þetta er umfangsmikil rannsókn á harmleik. Við viljum vita allt sem gerðist. Við vinnum með lögreglunni. Við erum ekki að vinna hvert í sínu horni, þetta er samvinna. Það verða svo við, réttarmeinafræðingarnir, sem munum gefa út endanlega niðurstöðu rannsókna á dánarorsök.“