Brýnt er að óháð innlend greiðslulausn sem hefur ekki tengingu við alþjóðlega kortainnviði verði innleidd hérlendis, svo að rekstraröryggi greiðslukerfa verði tryggt hérlendis. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands sem birtist á vef bankans í morgun.
Sveiflujöfnunarauki óbreyttur, en tryggja þarf rekstrarsamfellu
Í yfirlýsingu sinni segir nefndin að staða fjármálastöðugleika sé góð þegar á heildina sé litið, þótt enn sé óvissa vegna faraldursins. Hins vegar bætir hún við að kerfisáhætta hafi vaxið vegna hækkandi skulda og íbúðaverðs, en segir þó viðnámsþrótt stóru bankanna þriggja vera mikinn, þar sem eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra sé vel yfir lögbundnum mörkum og þeir hafi greiðan aðgang að fjármögnun.
Nefndin minntist þó á rekstraröryggi greiðslukerfa hérlendis, sem hún sagði að huga ætti að og minnti rekstraraðila á mikilvægi þess að tryggja samfellu í rekstri. Þar að auki sagði nefndin að brýnt sé að áfram verði unnið að innleiðingu á óháðri innlendri smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega kortainnviði.
Rafkróna möguleg greiðslulausn
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um vinnur Seðlabankinn að slíkri lausn þessa stundina, en hún gæti falið í sér útgáfu svokallaðrar rafkrónu. Samkvæmt Guðmundi Kr. Tómassyni, sem situr í fjármálastöðugleikanefnd bankans, yrði slík lausn í raun rafrænt reiðufé sem hægt væri að nota t.d. úr rafveski í síma til að kaupa vörur og þjónustu beint og milliliðalaust. Í viðtali í hlaðvarpsþættinum Ekon í sumar sagði hann að vinna að slíkri lausn væri komin langt á veg í Svíþjóð, þótt engin formleg ákvörðun hafi verið tekin þar í landi enn sem komið er.
Í síðasta riti Fjármálastöðugleika kemur fram að Seðlabankinn hafi skoðað útgáfu rafkrónu sem varagreiðslumiðlunarleið. Hins vegar segir bankinn að mörg álitaefni þarfnast frekari skoðunar áður en til ákvörðunar kemur um slíka útgáfu, en hann kannar nú möguleg áhrif hennar á peningastefnu og fjármálastöðugleika.