Í lok júnímánaðar nám upphæð ferðainneignar sem einstaklingar eiga inni hjá flugfélaginu Icelandair alls rúmum 11,2 milljörðum króna. Á sama tíma nam virði bókaðra flugmiða hjá flugfélaginu rúmum 21,3 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Icelandair Group, sem birt var í gærkvöldi. Sú háa upphæð sem viðskiptavinir félagsins eiga í inneignarnótum þarf ekki að koma á óvart, enda gaf flugfélagið út inneignarnótur fyrir um 12 milljarða króna á síðasta ári, vegna flugferða sem ekki voru farnar.
Icelandair, rétt eins og önnur flugfélög, reyndi eftir fremsta megni að endurgreiða viðskiptavinum fyrir flug sem féllu niður vegna heimsfaraldursins með ferðainneignum, til þess að hefta útstreymi lausafjár á þeim miklu óvissutímum sem kórónuveirufaraldurinn hafði í för með sér er hann skall á. Inneignarnótur hjá Icelandair gilda almennt í þrjú ár.
Fyrirtækið, sem tapaði 6,9 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og alls 10,9 milljörðum á fyrri helmingi ársins, var jákvætt í yfirlýsingum sínum til markaðarins í gær.
Flugáætlun 2022 80 prósent af flugáætlun ársins 2019
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group sagði í tilkynningu í gær að viðspyrna væri hafin hjá félaginu og að mikil aukning bókana á seinni hluta ársins hefði jákvæð áhrif á lausafjárstöðu félagsins, en handbært fé frá rekstri nam 8,2 milljörðum króna í lok júní.
Fram kom hjá Boga Nils að Icelandair vonaðist eftir því að flytja alls 400 þúsund ferðamenn til Íslands á árinu og að metnaðarfull flugáætlun hefði verið sett upp fyrir haustið og veturinn.
Hann viðurkenndi þó að óvissa vegna kórónuveirufaraldursins væri enn allnokkur. Í lok júnímánaðar höfðu 75 þúsund ferðamenn komið til landsins, samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.
Samkvæmt fjárfestakynningu Icelandair, sem farið var yfir á fundi í morgun, er félagið nú með flugáætlun fyrir árið 2022 sem er um 80 prósent af flugáætlun ársins 2019.