Með því að vera með fjármagnshöft á Íslandi er verið að segja að Ísland sé ekki alvöru land sem ræður við sín mál, að sögn Jóns Daníelssonar hagfræðiprófessors við London School of Economics. „Þú hefur valið að vera þorpsfíflið. Þetta er eins og verndaður vinnustaður,“ sagði Jón í erindi sínu á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins um afnám hafta í morgun. Mbl.is segir frá þessu.
Jón sagði að höftin væru verstu mistök sem gerð hefðu verið í kjölfar hrunsins, sem og það að hafa ekki afnumið þau. Ekki sé rétt að treysta alþjóðastofnunum, stjórnmálamönnum né ráðgjöfum sem hafi hagsmuni af höftunum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri til dæmis að vernda hagsmuni erlendra kröfuhafa. Það væri ekki eftir neinu að bíða með afnám hafta. „Það er hægt að afnema höftin mjög hratt og það er hægt að gera það strax.“
Ýmis kostnaður fylgi höftunum, sem einangri landið þannig að fyrirtæki geti þróast og dafnað innan hafta, sem skapi hagsmuni fyrir því að viðhalda höftunum. Það séu líka auknar líkur á spillingu í þannig umhverfi. Til lengri tíma litið væri meiri kostnaður af því að hafa höftin en að afnema þau. Ráðherrar sem hugsi um næstu kosningar vilji hins vegar ekki afnema höft, vegna skammtímakostnaðar.
Jón sagði að þrennt kæmi í veg fyrir að höftin væru afnumin. Í fyrsta lagi væri vanskilningur á eðli fjármálamarkaða og í öðru lagi væri mikið af slæmri ráðgjöf. Í þriðja lagi væru það ráðandi hagsmunir að viðhalda höftum.