Flokksráðsfundur Vinstri grænna fer nú fram á Ísafirði og tók Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins og forsætisráðherra Íslands, til máls í kjölfar setningarræðu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, varaformanns og félags- og vinnumarkaðsráðherra. Katrín fór um víðan völl í ræðu sinni og fjallaði meðal annars um kjarasamninga, vopnalöggjöf, jafnréttis- og lofslagsmál.
Hvað kjarasamninga varðar sagði Katrín að mörg þau jafnréttismál sem Vinstri græn ynnu að ættu þau sameiginleg með verkalýðshreyfingunni. Samt sem áður þyrfti að muna að það séu fulltrúar launafólks og atvinnuurekenda sem sitji við samningaborðið, en ekki stjórnvalda. Sagðist Katrín þó hafa fulla trú á því að þessir aðilar næðu góðum samningum fyrir íslenskt samfélag að almenning allan.
Aukinn jöfnuður skili aukinni hagsæld
Mikilvægt væri að tala ekki niður kröfur launafólks um bætt kaup og kjör um leið og launahæstu forstjórar landsins, sem hafi margföld mánaðarlaun venjulegs fólks, fái launahækkanir sem einar nemi hundruðum þúsunda á mánuði, ásamt mögulegum kaupréttum og háum arðgreiðslum til eigenda. Tók Katrín dæmi af forstjórum sem hafi mánaðarlaun sem nemi fimmtán- til sextánföldum lágmarkslaunum á vinnumarkaði og launahækkanir einar og sér einum og hálfum til tvennum lágmarkslaunum.
Þá sagði Katrín tíma til kominn að breyta skattlaagningu þeirra sem fyrst og fremst hafi fjármagnstekjur, og tryggja að þau greiði sanngjarnan hlut í útsvar til sveitarfélaganna til að fjármagna þau mikilvægu verkefni sem þau sinna ekki síst í félags- og velferðarþjónustu. Um það hafi verið talað í tuttugu ár en nú væri kominn tími aðgerða.
Höfnum almennum vopnaburði
Þá brá Katrín tali sínu að harmleiknum á Blönduósi þar sem tvö létust og einn særðist alvarlega í skotárás. Katrín sagði Íslendinga hafa átt því láni að fagna að búa í friðsælu samfélagi og að það væri sameiginlegt verkefni að tryggja það áfram. Takast þurfi á við aukinn vopnaburð með því að herða vopnalöggjöfina og ekki þurfi síður að efla umræðu og fræðslu hjá öllum kynslóðum – samfélagið hafni almennum vopnaburði. Eins skipti að sjálfsögðu máli að fara yfir hlutverks stjórnsýslunnar. „Á meðan slæmir hlutir geta gerst í öllum samfélögum hljótum við að læra af þeim og gera allt sem við getum til að þeir endurtaki sig ekki.“
Aldrei jafn mikilvægt að standa vörð um íslensk gildi
Katrín sagði skelfilega atburði sem þessa skekja samfélagið, og barst þá talið að vaxandi spennu víða í heiminum og nefndi Katrín þá innrás Rússlands í Úkraínu, nær reglubundið dráp Ísraelsmanna á óbreyttum borgurum í Palestínu og heræfingar undir ströndum Taívan. „Fyrir okkur sem tölum fyrir friðsamlegum lausnum er útlitið dökkt.“
Auknum átökum fylgdu einnig ógnvænleg þróun í fjölda mannréttindabrota. Afganskar konur hafi þannig verið sviptar réttindum sínum og konur í Bandaríkjunum hafi margar verið sviptar sjálfræði yfir líkömum sínum auk þess sem hatursglæpir gagnvart hinsegin fólki færist í vöxt.
Fyrir Íslendinga hafi aldrei verið jafn mikilvægt að standa vörð um okkar gildi. Þó að Ísland sé ofarlega eða jafnvel efst á listum yfir jafnrétti sé baráttunni hvergi nærri lokið. Til að mynda sé kynbundið og kynferðislegt ofbeldi enn of algengt og sagði Katrín ekki geta verið eðlilegt að konur á öllum aldri lifi í ótta. Þannig hafi aukin áhersla verið sett á málaflokkinn með auknu fjármagni til lögreglunnar og með aukinni forvarnavinnu allt niður í grunnskóla landsins.
Rannsaka á aðra- og þriðju vaktina
Þá sé átakið gegn launamuni kynjanna enn í gangi þrátt fyrir að mikill árangur hafi þegar náðst með leiðréttum launamuni upp á 4,1 prósent. „Við höldum áfram en aðgerðahópur sem ég hef skipað vinnur að tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Það er mín von að þær tillögur færi okkur nær því að leiðrétta þessa skekkju,“ sagði Katrín, auk þess sem ríkisstjórnin hafi nýlega samþykkt tillögu hennar um að hefja undirbúning að rannsókn á ólaunuðum heimilis- og ummönnunarstörfum sem unnin séu á annarri og þriðju vaktinni.
Á sama tíma og Ísland hafi tekið stökk upp á við á regnbogakorti ILGA Europe vegna framfara í löggjöf og regluverki sé dapurlegt að skynja aukna fordóma og niðrandi umræðu. Það sýni svo ekki verði um villst að réttindabaráttunni ljúki aldrei. Starfshópur um hatursorðræðu hafi hafið störf í sumar og meginverkefni hans sé að að skoða hvort stjórnvöld skuli setja heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu sem er m.a. vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar.
Frelsisstríðið haldi áfram
Annað verkefni sem eigi eftir að hafa mikil áhrif á réttindi fólks í daglegu lífi sínu sé lögfesting Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hluti af því verkefni er að koma á laggirnar sjálfstæðri mannréttindastofnun og nú á haustmánuðum er að hefjast samráðsferli um það verkefni af fullum þunga.
„Mannréttindi eru kjarni í vinstri-grænni pólitík. Grundvallarhugmyndin í okkar pólitík er að tryggja réttlæti og jöfnuð fyrir okkur öll. Og þar með má segja að mannréttindabarátta sé eitt mikilvægasta verkefni okkar sem stjórnmálahreyfingar og það er okkar hlutverk að halda því frelsisstríði áfram; taka af öllu afli á móti ranglæti og hatri sem hvergi á að líðast.“