Íslenskir stúdentar eru samvinnuþýðari en bandarískir stúdentar og leggja sig harðar fram við að halda hópavinnu gangandi. Ýmsir félagsþættir benda til að Íslendingar samsvari sig almennt betur í hópi fólks og séu það sem kallað er á ensku group minded á kostnað einstaklingshyggju.
Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem Dr. Anna Gunnþórsdóttir hefur unnið að ásamt Pálmari Þorsteinssyni, meistaranema við Háskóla Íslands. Anna er prófessor við hagfræðideild Vínarháskóla og hennar sérsvið er leikjafræði og tilraunir í hagfræði. Fyrr í aprílmánuði hélt hún erindi um rannsóknina í Háskóla Íslands, en hún kennir þar námskeið í atferlisfjármálum á vorönn.
Óvæntar niðurstöður
„Þessar niðurstöður, að Íslendingar eru samvinnuþýðari en aðrar þjóðir, koma í raun til sem nokkurs konar hliðar-afurð annarrar rannsóknar sem ég vinn að um svokallað töfra-jafnvægi,“ segir Anna. Til þess að sannreyna niðurstöðurnar sem sýndu samvinnuvilja Íslendinga þá endurtók Anna tilraunina meðal bandarískra stúdenta og síðan aftur meðal íslenskra stúdenta. Allar niðurstöðurnar studdu það sem áður hafði komið í ljós: Íslendingar eru samvinnuþýðari.
Tilraunin sjálf byggir á kenningunni um „vandamál fangans“ sem það er þekkt kenning innan leikjafræðinnar. Hún lýsir því hvernig einstaklingar geta valið milli þess að vinna saman eða svíkja hvorn annan. Best er fyrir einstaklingana að vinna saman en þeir hafa þó báðir hvata til þess að svíkja samkomulag um samvinnu.
„Í tilraun okkar fá stúdentar ákveðna peningaupphæð sem þeir geta ýmist lagt inn á einstaklings-reikning eða hópa-reikning. Ef allir leggja inn á hópareikninginn þá græða allir en einstaklinginn er engu að síður betur settur ef aðrir leggja inn á hópareikning, en hann ekki. Þetta er líkt því og þegar hópur nemenda vinnur saman að ritgerð. Allir vilja fá sem hæsta einkunn og nemendurnir fá allir sömu einkunn, en einhver í hópnum getur séð hag sinn í að leggja ekki sitt af mörkum og læra til dæmis í staðinn fyrir lokaprófið í áfanganum,“ útskýrir Anna. Nemandinn fengi þá sama ábata og hinir, án þess þó að hafa neitt fyrir því.
Samhyggjan sterk
Þetta leiðir til þess að hópavinna liðast í sundur á endanum og nær jafnvægi við einstaklingshyggju. En rannsóknin sýndi að Íslendingar leggja sig meira fram við hópavinnu og hún gengur lengur en hjá bandarískum stúdentum. „Fyrir einstaklinginn er það rökrétt í þessum leik að hugsa um sjálfan sig og því mætti segja að Íslendingar séu órökréttari en bandarísku nemendurnir. En heilt yfir er þessi leitni til hópavinnu talin jákvæð.“
Spurð um ástæður þessarar hegðunar Íslendinga segir Anna að hún hafi leitað skýringa og rannsakað hvort þær eigi við. Hún nefnir meðal annars samfélagskenningu Hofstede sem nái þó ekki að skýra þennan hegðunarmun nægilega. „Önnur samfélagskenning virðist fanga þetta betur. Kenningin mælir hvernig lög og reglur hafa áhrif á samfélög og hvort innan þeirra ríki einstaklingshyggja eða samhyggja. Margir þættir benda til að samhyggja sé ríkjandi meðal Íslendinga. Rannsóknir hafa sýnt fram á að svo sé raunin á Norðurlöndunum öllum, en er jafnvel enn ríkari á Íslandi.“