Vöruskipti við útlönd voru neikvæð um 6,4 milljarða króna á fyrstu sjö mánuðum ársins. Á því tímabili fluttu Íslendingar inn vörur fyrir 391,5 milljarða króna en út fyrir um 385,2 milljarða króna. Á sama tíma árið 2014 voru vöruskiptin óhagstæð um 7,6 milljarða króna. Vert er að hafa í huga að stórar fjárfestingar íslenskra fyrirtækja hafa haft töluverð áhrif á aukningu í innflutningi. Alls er innflutningur á fyrstu sjö mánuðum ársins 17,2 prósent meiri en hann var á sama tímabili í fyrra vegna hrá- og rekstrarvöru og kaupa á flugvélum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands sem birtar voru í morgun.
Iðnaðarvörur eru 54,2 prósent alls útflutnings það sem af er ári og er verðmæti þerira 24,8 prósent hærra en árið áður. Þar skiptir útflutningur á áli mestu. Sjávarafurðir hafa alls verið 41,6 prósent vöruútflutnings og verðmæti þeirra hefur verið 19,3 prósent hærra en í fyrra, aðallega vegna útflutnings á fiskimjöli.
Tekjur íslenska þjóðarbúsins vegna ferðaþjónustu reiknast ekki inn í vöruskiptajöfnum, heldur teljast þær til þjónustuútflutnings. Tölur um þjónustuviðskipti verða birtar á morgun.