Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, færði Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra, ávísun á jáeindaskanna í dag en slíkt tæki hefur aldrei verið til á Íslandi. Um 200 íslenskir sjúklingar verða í ár sendir til Kaupmannahafnar í slíkan skanna en hver ferð kostar um það bil tvær til þrjár milljónir króna.
Jakob Jóhannsson, yfirlæknir við geislameðferð krabbameina á Landspítalanum hefur sagt að tækið geti til dæmis verið notað til þess að finna upprunastað krabbameins ef fólk greinist með meinvarp. Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að líklegt sé að notkunin verði meiri þegar jáeindaskanni sé til á Íslandi. Með skannanum má áætla nákvæmari staðsetningu meinanna og þannig beina geislameðferð nákvæmlega á staðinn.
Auk þess að vera mikilvægt tæki í krabbameinslækningum hefur það reynst vel við greiningu á Alzheimers-skjúkdóminum. Með tækinu er hægt að fylgjast með virkni heilans, til að mynda þegar hann leysir úr ákveðnum verkefnum, eða virkni annara líffæra og getur þess vegna verið mikilvægt tæki til vísindarannsókna á sjúkdómum í hinum ýmsu líffærum.
Tækið kostar um það bil 800 milljónir íslenskra króna og þarf sérhæft starfsfólk til þess að annast tækið. Tækið er nokkuð stórt og fyrir það þarf að öllum líkindum að ráðast í nýbyggingar eða hagræða í núverandi húsnæði.