Úrskurður kærunefndar útlendingamála frá 3. febrúar 2022, þess efnis ad hafna kröfu Hussein Hussein, fatlaðs flóttamanns frá Írak, um endurupptöku máls hans, var í dag felldur úr gildí í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Í kjölfarið var kveðinn upp dómur í máli móður Hussein, Maysoon Al Saedi, systra hans Zahraa og Yasameen og bróður hans Sajjad. Þar var niðurstaðan sú sama.
„Þetta er ótrúlega mikill léttir af því að það er alveg ljóst að í Grikklandi beið þeirra engin framtíð, ekki neitt. Þeirra vegna er þetta mikill léttir,“ segir Claudia Wilson, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við Kjarnann.
Fjölskyldan kom aftur til Íslands um helgina og mun Claudia hitta Hussein, móður hans, bróður og systur síðar í dag til að fara yfir næstu skref.
Með niðurstöðu dómsins fellur úrskurður kærunefndar útlendingamála úr gildi. Það á svo eftir að koma í ljós hvort að Útlendingastofnun muni una niðurstöðunni eða áfrýja. Ef niðurstöðunni verður ekki áfrýjað verður mál þeirra tekið til efnislegrar meðferðar.
Samkvæmt Claudiu eru forsendur dómanna þær að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að kenna fjölskyldunum um að hafa valdið töfum á flutningi þeirra frá Íslandi. Málið hefur mikið fordæmisgildi fyrir önnur sambærileg mál þar sem íslenska ríkið hefur kennt umsækjendum um töf á flutningi þeirra frá Íslandi.
„Forsendur dómanna er sú að umbjóðendur mínir báru ekki ábyrgð á töfum í máli þeirra, annars vegar þar sem ósannað var að þau hafi stuðlað að töfum og jafnvel þó fallist hefði verið á slíkt hafi þær tafir hins vegar verið óverulegar, þar sem stjórnvald hafi þegar tafið mál þeirra sjálf í 11 mánuði og 16 daga,“ segir Claudia.
Claudia segir jafnframt að „það er alveg ljóst að dómurinn tekur af skarið um langvarandi og varhugaverða framkvæmd hjá íslenskum stjórnvöldum að halda fólki hér lengi í óvissu og mæta síðan til þeirra, jafnvel degi fyrir lok 12 mánaða tímafrestsins til þess eins að geta svo kennt þeim um tafir“.
Framkvæmd brottvísunarinnar gagnrýnd harðlega
Þann 3. nóvember var fimmtán manneskjum í leit að vernd vísað frá landinu og flogið í fylgd 41 lögreglumanns, í leiguflugvél á vegum stjórnvalda, frá Keflavíkurflugvelli til Aþenu í Grikklandi. Hópurinn samanstóð af ellefu körlum og fjórum konum, fólki sem flúði upprunalega Afganistan, Írak, Palestínu eða Sýrland. Hussein og fjölskyldan hans voru þeirra á meðal.
Til stóð að vísa 28 manns úr landi en þrettán fundust ekki. Hluti hópsins beið niðurstöðu kærunefndar útlendingamála og héraðsdóms, þar á meðal Hussein og fjölskylda.
Claudia lýsti yfir áhyggjum þegar ljóst var í hvað stefndi. Fjölskyldan hafði dvalið á Íslandi í tæp tvö ár. Hussein notar hjólastól og hefur fjöldi félagasamtaka fordæmt framgöngu lögreglunnar við brottvísunina, þar sem Hussein var tekinn úr hjólastól sínum og lyft í lögreglubíl. Þá biðu lögreglumenn systra hans, sem stunduðu nám í Fjölbrautaskólanum í Ármúla, að loknum skóladegi og bróðir þeirra, Sajjad, var handjárnaður og færður á lögreglustöð, áður en fjölskyldan var svo flutt til Grikklands um nóttina þar sem fjölskyldan hefur hvorki gild dvalarleyfi né dvalarstað.
Aðalmeðferð í máli Hussein hófst 18. nóvember og um tíma leit út fyrir að Hussein kæmi til Íslands til að vera viðstaddur réttarhöldin. Dómari fól ríkislögmanni við þinghald málsins að kanna hvort ríkið vildi flytja Hussein aftur til Íslands svo hann gæti gefið skýrslu fyrir dómi. Úr því varð ekki en Hussein bar vitni með fjarfundarbúnaði.
Ríkur vilji til að læra af ferlinu í máli Hussein
Þetta er í fyrsta sinn sem mál af þessu tagi, það er þegar fötluðum manni er vísað úr landi, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Katrín sagði í samtali við fréttastofu RÚV um miðjan nóvember að „ríkur vilji til þess hvað varðar framkvæmdina að læra af þessu ferli.“
Í kjölfar brottvísunarinnar var ákveðið að ráðherranefnd um flóttamannamál og fulltrúar lögreglu, Útlendingastofnunar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins myndu hittast til að ræða frekar stöðu fatlaðs fólks á flótta og skuldbindingar er varða fatlað fólk.